Grikkir samþykktu skattahækkanir

Mótmælt var fyrir utan þinghúsið í Aþenu í gær.
Mótmælt var fyrir utan þinghúsið í Aþenu í gær. AFP

Gríska þingið samþykkti í gær frek­ari niður­skurðaraðgerðir og skatta­hækk­an­ir að kröfu lán­ar­drottna Grikk­lands. Full­trú­ar lán­ar­drottn­anna munu funda næst á morg­un í Brus­sel og er talið lík­legt að þeir samþykki þá að veita Grikkj­um frek­ari neyðarlán.

All­ir þing­menn stjórn­ar­meiri­hlut­ans, und­ir for­ystu vinstri­flokks­ins Syr­iza, greiddu at­kvæði með frum­varp­inu, 153 tals­ins, en 145 kusu gegn því.

Lán­ar­drottn­arn­ir, Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn, Evr­ópski seðlabank­inn og Evr­ópu­sam­bandið, samþykktu í fyrra að veita Grikkj­um neyðarlán að verðmæti 86 millj­arða evra.

Mót­mæl­end­ur söfnuðust sam­an fyr­ir fram­an þing­húsið í Aþenu, höfuðborg lands­ins, meðan á umræðum og at­kvæðagreiðslu um frum­varpið um­deilda stóð.

Grísk stjórn­völd þurfa að standa skil á 3,5 millj­arða evra af­borg­un af láni lán­ar­drottn­anna á næstu tveim­ur mánuðum. Þingið þar í landi samþykkti fyrr í mánuðinum um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á líf­eyr­is- og skatt­kerfi lands­ins, í sam­ræmi við kröf­ur lán­ar­drottna um frek­ari neyðaraðstoð, að því er seg­ir í frétt breska rík­is­út­varps­ins.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Al­ex­is Tsipras, for­sæt­is­ráðherra Grikk­lands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert