Fundu flak bresks kafbáts

Kafbátur sömu gerðar og HMS P 311.
Kafbátur sömu gerðar og HMS P 311. Wikipedia

Kafari fann nýverið flak bresks kafbáts frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar við strendur ítölsku eyjarinnar Sardiníu. Kafbáturinn HMS P 311 fórst í janúar 1943 með 71 mann um borð.

Haft er eftir kafaranum, Massimo Domenico Bordone, í frétt AFP að hann hafi tekið eftir kafbátnum þegar hann var við köfun úti fyrir norðausturströnd Sardiníu skammt frá eynni Tavolara. Bordone er þekktur fyrir leit sína að skipsflökum og var hann að þessu sinni við leit að kafbátnum. Honum hafi strax orðið hugsað til bresku sjóliðanna sem farist hefðu með bátnum.

Fram kemur í fréttinni að HMS P 311 hafi lagt af stað frá Möltu 28. desember 1942 með þau fyrirmæli að ráðast á ítölsk orrustuskip sem lágu við hafnarborgina La Maddelena á Sardiníu. Kafbáturinn hvarf hins vegar sporlaust en talið er að hann hafi siglt á ítalskt tundurdufl.

Bardone telur að kafbáturinn hafi sokkið án þess að komið hafi gat á hann og áhöfnin hafi látist smám saman af súrefnisskorti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert