Grjótkast við kosningafund Trump

Donald Trump hefur víða vakið mótmæli en hann hefur vegið …
Donald Trump hefur víða vakið mótmæli en hann hefur vegið harðlega að innflytjendum í kosningabaráttu sinni. Myndin er úr safni. AFP

Mótmælendur hentu grjóti og flöskum að lögreglu og reyndu að brjóta sér leið inn á kosningafund Donalds Trump í Nýju-Mexíkó í gær. Lögreglan beitti piparúða og reyksprengjum á hópinn. Trump fór með sigur af hólmi í forkosningum í Washington-ríki í gær.

Óeirðir brutust út fyrir utan kosningafund Trump í Albuquerque í Nýju-Mexíkó í gær. Mótmælendurnir hentu meðal annars brennandi bolum í lögregluna. Að minnsta kosti nokkrir mótmælendanna veifuðu mexíkóskum fánum og sungu níðsöngva um væntanlegan forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins. Aðrir báru skilti með fúkyrðum gegn Trump á spænsku. Mótmælendur trufluðu einnig ítrekað ávarp Trump á fundinum.

Alræmt varð þegar Trump sagði mexíkóska innflytjendur vera nauðgara og fíkniefnasala. Þá hafa hugmyndir hans um að láta mexíkósk stjórnvöld greiða fyrir byggingu múrs á landamærum ríkjanna tveggja og að láta vísa ellefu milljónum óskráðra innflytjenda úr landi fallið í grýttan jarðveg hjá þeim fjölda innflytjenda frá Rómönsku-Ameríku sem búa í Bandaríkjunum.

Hvergi er hlutfall þessara innflytjenda eins hátt og einmitt í Nýju-Mexíkó en nærri því helmingur íbúa ríkisins er af rómönskum uppruna. Skoðanakannanir benda til þess að þeir séu alfarið á móti tillögum Trump í innflytjendamálum.

Aðeins herslumun vantar nú upp á að Trump tryggi sér útnefningu repúblikana sem forsetaframbjóðandi þeirra. Þegar tveir þriðju hlutar atkvæða höfðu verið taldir í Washington-ríki var Trump með 76% atkvæða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert