Átök eftir fjöldafund Trump

Lögregla handtók 35 manns vegna átakanna.
Lögregla handtók 35 manns vegna átakanna. AFP

Stuðningsmönnum og andstæðingum forsetaframbjóðandans Donald Trump lenti saman í borginni San Diego í Kaliforníu nú í morgun.

Lögregla hefur lýst samkomu utan við ráðstefnuhöll í borginni ólöglega og handtekið 35 manns. Samkvæmt BBC hafa bæði steinar og vatnsflöskur flogið á milli hinna stríðandi fylkinga.

Trump var í borginni, sem er nálægt landamærum Mexíkó, til að halda fjöldafund fyrir forkosningar repúblikana í Kaliforníu 7. júní. Eins og frægt er orðið hefur hann staðhæft að hann muni byggja vegg við landamærin til að halda úti ólöglegum innflytjendum.

Átökin brutust út eftir fjöldafundinn, í því sem stuðningsmenn flæddu úr ráðstefnuhöllinni og mættu andstæðingum á götum úti. Tugir óeirðalögreglumanna voru sendir á staðinn til að skilja hópana að. Nokkrir mótmælendur klifu vegg við ráðstefnuhöllina til að kasta vatnsflöskum í lögreglu.

Trump í pontu í San Diego.
Trump í pontu í San Diego. AFP

U.þ.b. einn þriðji hluti íbúa San Diego er af rómönsku bergi brotinn og hundruð þúsunda manna fara löglega yfir landamærin við Mexíkó á degi hverjum. Samkvæmt lögreglu urðu engar eignaskemmdir og enginn virðist hafa slasast alvarlega í átökunum.

Trump tísti til lögreglu eftir viðburðinn: „Vel að verki staðið við að taka á rustunum sem reyndu að trufla okkar mjög svo friðsamlegu og fjölmennu samkomu.“

„Það er enginn þurrkur“

Á öðrum fjöldafundi í Fresno hafði Trump lýst því yfir að það væri „enginn þurrkur“ í Kaliforníu þrátt fyrir að síðustu fjögur ár séu mesta þurrkatímabil sem ríkið hefur upplifað. Eftir að hafa rætt við bændur sem kvörtuðu yfir vatnsskorti fyrir uppskeru sína sagði hann: „Þeir skilja ekki, enginn skilur það. Það er enginn þurrkur. Þeir veita vatninu út í sjóinn.“

Segir BBC að þar virðist Trump vera að vísa til vatns sem er veitt úr Sacramento-ánni í höfn San Francisco-borgar, að hluta til í þeim tilgangi að vernda tegundir í útrýmingarhættu. Trump sagði að ef hann kæmist til valda myndi hann „byrja að opna fyrir vatnið“ og tryggja að bændur hefðu nóg fyrir uppskeru sína.

Stuðningsmenn Trump á fundinum í San Diego.
Stuðningsmenn Trump á fundinum í San Diego. AFP

Trump er eini frambjóðandinn sem kosið er um í forkosningum repúblikana til forseta í Kaliforníu og hefur nú þegar náð þeim fjölda kjörmanna sem nauðsynlegir eru til að tryggja útnefningu flokksins. Hún hefur þó ekki verið staðfest enn.

Fyrr í gær hætti Trump við að þekkjast tilboð um kappræður við Bernie Sanders, annan forsetaframbjóðanda demókrata. Sagðist Trump í yfirlýsingu fremur vilja eiga í kappræðum við hvern þann sem hlýtur útnefningu demókrata, og að það yrði líklega Hillary Clinton. Nýjustu skoðanakannanir benda til að Clinton sé um fjórum prósentustigum vinsælli en Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert