Fimm úkraínskir hermenn létu lífið og fjórir særðust í sprengjuárásum í austurhluta Úkraínu síðasta sólarhringinn. Auk þess létust tveir uppreisnarmenn. Eru þetta næstflest dauðsföll í deilunni á einum degi, en á þriðjudag létust sjö hermenn á svæðinu.
Að sögn talsmanna stjórnarhersins hefur ástandið versnað hratt og eru átök orðin harðari en áður.
Leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Úkraínu hafa kallað eftir að friðarsamkomulagi verði komið á í austurhluta landsins þar sem uppreisnarmenn og stjórnarhermenn takast á.
Formaður öryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu, Oleksandr Turchynov, sagði í vikunni að hann kenndi Rússlandsstjórn um árásirnar og sakaði Rússa um að gera hvað sem er til þess að standa í vegi fyrir því að deilan verði útkljáð á friðsamlegan hátt. Hann sagði jafnframt að Rússar væru að koma þungavopnum yfir til austur Úkraínu og að síðasta mánuðinn hafi verið meira um umferð ómannaðra rússneskra loftfara í úkraínskri lofthelgi.
Átökin milli uppreisnarmanna hliðhollra Rússum og stjórnarhersins í austurhluta Úkraínu hófust í apríl 2014 og hafa rúmlega 9.300 látið lífið.