Francois Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, komu saman í dag og minntust þess að 100 ár eru liðin frá orrustunni í Verdun í Frakklandi á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Þau Hollande og Merkel nýttu tækifærið og gerðu Verdun að tákni fyrir sættir milli þjóðanna tveggja og fyrir sameinaða Evrópu.
Hollande varaði við „öflum aðskilnaðar“ í Evrópu og Merkel sagði að þjóðernisstefna „myndi henda okkur aftur á bak.“
Þrjú hundruð þúsund hermenn létust í orrustunni sem hófst í maí 1916 og stóð í samtals 10 mánuði. Hún var sú lengsta og ein sú blóðugasta í fyrri heimsstyrjöldinni. Við lok hennar stóð Frakkland uppi sem sigurvegari.
Meginathöfn dagsins fór fram í við Douaumont Ossuary-minnisvarðann sem inniheldur bein 130 þúsund þýskra og franskra hermanna. Forsetinn og kanslarinn kveiktu í sameiningu á kerti í byggingunni.
Um 4.000 frönsk og þýsk börn tóku þátt í deginum með því að leika eftir orrustu sem útfærð var af þýska kvikmyndagerðarmanninum Volker Schloendorff.
Merkel ávarpaði börnin: „Franski liðsforinginn Alfred Joubert var ekki mikið eldri en þið þegar hann, fyrir hundrað árum, ekki svo langt frá þar sem við stöndum nú, lá í skotgröf. Hann skrifaði í dagbókina sína: „Ekki einu sinni helvíti gæti verið svona hræðilegt.“
Merkel bætti því við að Evrópusambandið sannaði „hæfni sína til að gera málamiðlanir til sameiningar“ og fordæmdi „hreina þjóðernisstefnuhugsun og hegðun ríkja sem myndi kasta okkur aftur á bak.“
Hollande sagði: „Öfl aðskilnaðar, endaloka og flótta eru aftur virk. Þau rækta ótta og innræta hatur.“ Hann Sagði að Frakklandi og Þýskalandi bæri sérstök skylda til að „binda endi á átök við þröskulda okkar“ og til að „bjóða fólk sem flýr hörmungar og fjöldamorð velkomið.“