Geta ekki snúið til Fort McMurray vegna mengunar

Íbúar hverfa sem urðu illa úti í eldunum geta ekki …
Íbúar hverfa sem urðu illa úti í eldunum geta ekki snúið heim á næstunni vegna mengunar frá eiturefnum og þungmálmum. AFP

Mengun vegna eiturefna og þungmálma seinkar því að 9.000 íbúar Fort McMurray geti snúið heim á leið á ný, að sögn yfirvalda í Alberta-fylki í Kanada. Um 80.000 íbúar borgarinnar flúðu mikla skógarelda fyrir mánuði síðan.

Forsætisráðherra Alberta-fylkis,  Rachel Notley, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að meirihluta íbúa standi til boða að fara aftur til Fort McMurray og nágrannabyggða næsta miðvikudag.

Íbúar hverfanna  Abasand, Beacon Hill og Waterways, sem fóru illa út úr eldinum, þurfa hins vegar að bíða lengur.  

„Þeir ættu að gera áætlanir um að dvelja annars staðar, að minnsta kosti til skamms tíma […] þar til að hreinsun á hverfunum er lokið,“ sagði Notley.

Fjölmörg hús í þessum hverfum brunnu til kaldra kola, en íbúar um 500 húsa og íbúða, sem eldurinn fór fram hjá, fá ekki heldur að snúa heim. Hafa húsin  verið úrskurðuð óíbúðarhæf þar til að lokinni hreinsun, hefur AFP-fréttastofan eftir Karen Grimsrud, yfirmanni heilbrigðismála í Alberta.

Rannsóknir á lofti, jarðvegi og ösku í þessum hverfum hafa sýnt fram á tilvist eiturefna sem íbúar gætu komist í snertingu við. Eiturefnin geta valdið bruna og óþægindum í húð og öndunarfærum, en þungmálmar á borð við arsenik hafa lekið niður í jörðina og hefur um 30 km löng girðing verið reist utan um hverfin til að halda fólki frá.

Ekki hefur enn tekist að slökkva skógareldana, sem nú hafa náð yfir um 580.000 hektara svæði, en eldarnir teljast þó ekki lengur vera ógn við íbúabyggðir.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert