Muhammad Ali látinn

Muhammad Ali er látinn
Muhammad Ali er látinn AFP

Boxarinn Muhammad Ali, sem varð þrisvar sinnum heimsmeistari í hnefaleikum, er látinn, 74 ára að aldri. Ali lést eftir stutta sjúkrahúslegu vegna veikinda í öndunarfærum, en hann þjáðist einnig af Parkinsons-sjúkdómnum, sem mun hafa gert illt verra.

Talsmaður fjölskyldu Alis greindi frá andláti hans um hálffimmleytið í morgun að íslenskum tíma. Jarðarförin muni fara fram í heimabæ Alis, Louisville í Kentucky, að því er greint var frá á fréttavef BBC.

Ali, sem fæddist Cassius Marcellus Clay, var var í hópi þekktustu og dáðustu íþróttamanna sögunnar.

Honum skaut upp á frægðarhimininn er hann vann gullverðlaun í léttþungavigt á Ólympíuleikunum í Róm 1960. Fjórum árum síðar vann hann fyrsta heimsmeistaratitil sinn og þá í þungavigt, er hann lagði Sonny Liston að velli. Ali var einungis 22 ára gamall og höfðu fáir trú á að hann myndi hafa roð við Liston, sem ekki hafði tapað atvinnubardaga fram að því.

Ali lagði boxhanskana á hilluna 1981 og hafði þá unnið 56 af þeim 61 bardaga sem hann hafði háð. Þremur árum síðar greindist hann með Parkinsons-sjúkdóminn og eru höfuðhögg vegna hnefaleikanna talin á meðal líklegra áhættu- og orsakaþátta fyrir það afbrigði sjúkdómsins.

Hann var krýndur „Íþróttamaður aldarinnar“ hjá tímaritinu Sports Illustrated og BBC og margverðlaunaður fyrir framlag sitt til íþrótta- og mannúðarmála. Auk boxhæfileikanna var Ali ekki síður þekktur fyrir að fara mikinn í lýsingum sínum utan hringsins.

Er hann var eitt sinn spurður hvernig hann vildi láta minnast sín sagði hann: „Sem manns sem aldrei fórnaði fólki sínu. En ef það er of mikið, þá bara sem góðs hnefaleikakappa. Mér er meira að segja sama þótt þess verði ekki minnst hversu myndarlegur ég var.“

Muhammad Ali og George Foreman í bardaga í Kinshasa 1974.
Muhammad Ali og George Foreman í bardaga í Kinshasa 1974. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert