Hundruð norðurkóreskra verkamanna starfa við bágar aðstæður innan ríkja Evrópusambandsins, í sumum tilvikum hjá fyrirtækjum sem styrkt eru af Evrópusambandinu. Sameinuðu þjóðirnar áætla að slíkir farandverkamenn skili norðurkóreska ríkinu allt að 1,6 milljörðum punda í tekjur árlega, um 288 milljörðum íslenskra króna, sem fara m.a. í að fjármagna kjarnorkuáætlun stjórnvalda í Pyongyang.
Leiden Asia Centre (LAC) vinnur nú að rannsókn á norðurkóresku vinnuafli innan Evrópu, en Remaco Breuker, prófessor við Háskólann í Leiden í Hollandi, stýrir rannsókninni. Samkvæmt LAC eru Norður-Kóreubúar við störf víða í Evrópu, m.a. í Tékklandi, Póllandi, Hollandi og á Möltu, og starfa minnst þrjú norðurkóresk fyrirtæki sem nokkurs konar starfsmannaleigur fyrir evrópsk fyrirtæki, þrátt fyrir að gefa sig út fyrir annað.
Vegna skrifræðisflækju þeirra fyrirtækja er verkamennirnir ganga á milli getur verið erfitt fyrir yfirvöld að kortleggja starfsemina og hafa uppi á verkamönnunum. Í samtali við The Telegraph, segist Breuker óttast að þeir séu víðar en talið hefur verið. „Ég óttast að við höfum aðeins afhjúpað toppinn á ísjakanum. Nú viljum við kanna hvort fleiri Norður-Kóreubúar flakki á milli ríkja Evrópu sem farandverkamenn starfsmannaleiga“
Í það minnsta tvö pólsk fyrirtæki, Alson og Armex, sem eru í eigu sömu aðila, kaupa ódýrt vinnuafl frá Norður-Kóreu, en þau virðast hafa átt í góðu sambandi við yfirvöld í Asíuríkinu. Árið 2010 færði Armex Kim Jong-il, þáverandi leiðtoga Norður-Kóreu, sverð að gjöf, sem er til sýnis ásamt öðrum gjöfum til leiðtogans og föður hans á safni þar í landi.
Frá Armex og Alson eru verkamennirnir síðan leigðir áfram til yfir 30 pólskra fyrirtækja. Þar á meðal eru skipasmíðastöðvarnar Crist og Nauta, sem íslensk fyrirtæki hafa meðal annars átt í viðskiptum við, en á heimasíðu Nauta, státar fyrirtækið sig af lágum vinnuaflskostnaði. Bæði Crist og Nauta skipasmíðastöðvarnar, hafa hlotið styrk frá Byggðaþróunarsjóði Evrópu, en framkvæmdaáætlanir sjóðsins eru fjármagnaðar sameiginlega af öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Samkvæmt LAC, hefur hluti þessara styrkja því runnið óbeint til stjórnvalda í Pyongyang, í gegnum kóreska verkamenn í Evrópu.
Kjör og aðstæður verkamannanna eru bágar, en þeir vinna sex daga vikunnar, 12 tíma í senn, og myndu störf þeirra að öllum líkindum flokkast sem nauðungarvinna samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu. Þeir verkamenn sem starfa í Póllandi, búa í afgirtum byggingum og deila fjórir til fimm herbergi saman.
Árið 2014 lést norðurkóreskur verkamaður í skipasmíðastöð, þar sem hann starfaði á vegum Armex, og í skýrslu pólska vinnumálaeftirlitsins kom fram að honum hafði ekki verið útvegaður viðeigandi hlífðarfatnaður.
Í nýlegri umfjöllun Vice um málið, er rætt við norðurkóreska verkamenn í pólskum skipasmíðastöðvum, og segja þeir pólsku fyrirtækin greiða vinnuveitendum þeirra, þ.e. norðurkóresku fyrirtækjunum, laun, sem sjá síðan um að koma þeim áfram til verkamannanna. „Við fáum ekki greitt beint til okkar. Við látum fyrirtækið sjá um peningana. Þegar ég fer aftur til Kóreu fæ ég peningana. Ef við geymdum reiðufé, er möguleiki á að við týnum því. Við þurfum ekki peninga á leið til og frá vinnu svo við látum fyrirtækið sjá um þá. Það er öruggara.“
Eigandi Armex og Alson, Cecyilia Kowalska, segir þetta alrangt og að verkamennirnir mæti sjálfir og fái greitt í reiðufé um hver mánaðarmót.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 50.000 Norður-Kóreubúar séu utan heimalandsins og færi ríkinu erlendan gjaldeyri, sem er því mikilvægur vegna þeirra viðskiptaþvingana sem Norður-Kórea býr við. Flýji verkamennirnir, bíður fjölskyldu þeirra hræðilegar afleiðingar. Það veldur því að fáir leggja á flótta, en talið er að innan við 1 af hverjum 1000 Norður-Kóreubúum sem starfa erlendis, losni úr prísundinni.
Samkvæmt talsmanni útlendingastofnunar Póllands, var einum norður-kóreskum flóttamanni veitt hæli í landinu á síðasta ári, en frá 2010–2015 voru gefin út atvinnuleyfi fyrir tæplega 2000 norðurkóreska ríkisborgara í Póllandi, en Pólverjar eiga í stjórnmála- og viðskiptasambandi við Norður-Kóreu. Þannig heldur Pólland úti sendiráði íPyongyang og Norður-Kórea í Varsjá, en KimPyong-il, bróðir KimJong-il, fyrrum leiðtoða Norður-Kóreu, var sendiherra gagnvart Póllandi þar til á síðasta ári.
Talið er að flestir norðurkóreskir verkamenn sem starfa erlendis, komi frá höfuðborginni, Pyongyang og að þeir verði að vera hollir stjórnvöldum og giftir. Eyða þeir fimm árum erlendis, en fá að fara í frí til heimalandsins að lokinni tveggja ára vinnu, áður en þeir snúa aftur í þrjú ár.
Í samtali við Vice, segir Remco Breuker, sem stýrir rannsókn LAC, ríkið vera rekið eins og fyrirtæki „Í mínum huga er Norður-Kórea stærsta ólöglega atvinnumiðlun heims. Þeir senda vinnuafl hverjum þeim sem vill borga. Það er ekkert norðurkóreskt ríki. Það er Norður-Kórea eða Pyongyang hf. Það er fyrirtæki. Það gerir allt það sem það getur til að framkvæmdastjórinn haldi völdum og græði eins mikið og mögulegt er.“
Langstærstur hluti norðurkóresks vinnuafls, sem starfar utan heimalandsins, er staðsett víða um Asíu og í Rússlandi. Þannig er talið að tæplega 2000 manns starfi í Katar við uppbyggingu fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2022. Þá reka stjórnvöld í Pyongyang veitingastaðakeðju í á öðrum tug Asíuríkja, en á þessu ári hafa tveir hópar starfsmanna keðjunnar, flúið til nágrannaríkisins í suðri.