Hillary Clinton hefur lýst yfir sigri í baráttu sinni við Bernie Sanders um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins eftir að hún sigraði í forkosningunum í New Jersey í gærkvöldi. Clinton sigraði þó einnig í Suður-Dakóta og New Mexico á meðan Sanders hlaut sigur í Norður-Dakóta og Montana.
Clinton sagði þetta sögulega stund fyrir konur. „Það er ykkur að þakka að við höfum náð þessum áfanga,“ sagði Clinton við dynjandi lófaklapp stuðningsmanna sinna í New York. Hrópaði hún jafnframt að nú væri kona forsetaefni í Bandaríkjunum í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar.
Kosið var í sex ríkjum í gær og á eftir að tilkynna úrslit í Kaliforníu sem er jafnframt stærsta ríkið. Sanders vonast eftir sigri þar en nú þegar að 41% atkvæða hafa verið talin er Clinton með 59,4% atkvæða en Sanders 39,5%.
Sagði hann stuðningsmönnum sínum í gær að hann myndi halda baráttunni áfram þrátt fyrir að vita að það væri á brattan að sækja.
Hann stefnir á að reyna að fá ofurkjörmenn til þess að sýna honum stuðning í staðinn fyrir Clinton á þingi flokksins í næsta mánuði. Það er þó talið ólíklegt að það gerist.