Skoðaður vegna tengsla við hryðjuverkahópa

Omar Amir Siddiq Mateen varð allavega 50 manns að bana …
Omar Amir Siddiq Mateen varð allavega 50 manns að bana þegar hann hóf skotárás á skemmtistað í Orlando. Mynd/Orlando Police

Maðurinn sem skaut allavega 50 manns til bana í Orlando í Flórída í Bandaríkjunum í dag var til skoðunar hjá alríkislögreglu landsins árin 2013 og 2014. Hafði hann meðal annars látið fjandsamleg ummæli falla við samstarfsmenn sína sem fengu yfirvöld til að skoða möguleg tengsl hans við hryðjuverkahópa. Þá var hann einnig með tengsl við amerískan sjálfsmorðssprengjumann.

Alríkislögreglumaðurinn Ron Hopper, yfirmaður rannsóknarinnar á árásarmanninum, Omar Amir Siddiq Mateen, segir að hann hafi fyrst verið yfirheyrður árið 2013 fyrir ummæli sín við samstarfsfélaga sína. Þá var hann meðal annars skoðaður vegna mögulegra tengsla við hryðjuverkahópa.

Skoðun alríkislögreglunnar, yfirheyrslur og eftirlit með Mateen leiddi þó ekki til þess að hann væri talinn hættulegur.

Árið 2014 kom hann aftur til skoðunar alríkislögreglunnar vegna mögulegra tengsla við sjálfsmorðssprengjumanninn Moner Abusalha. Aftur var það niðurstaða alríkislögreglunnar að ekki stafaði hætta af Mateen.

Í fjölmiðlum í dag hefur komið fram að Mateen hafi hringt í neyðarlínuna og sagt að hann væri að fremja ódæðið sem liðsmaður íslamska ríkisins. Hooper sagði á fundi með fréttamönnum að það væri rétt að það hefði átt stað símtal milli neyðarlínunnar og Mateen. Það hefði aftur á móti verið almennt um íslamska ríkið.

Þá kom á fundinum einnig fram að Mateen hefði keypt tvö vopn á síðustu tveimur vikum. Hann hefði ekki verið á neinum bannlista og því hefði hann getað gengið inn í skotvopnaverslun og keypt byssur.

Lögreglan í Orlando er byrjuð að birta nöfn þeirra sem létust í árásinni. Sjá má listann á eftirfarandi síðu.

Ron Hopper, yfirmaður hjá alríkislögreglunni fer fyrir rannsókn málsins.
Ron Hopper, yfirmaður hjá alríkislögreglunni fer fyrir rannsókn málsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert