Fimmtíu eru látnir og 53 særðir eftir skotárás sem gerð var á Pulse-skemmtistaðnum í Orlando í Flórída í Bandaríkjunum í nótt. Árásarmaður hóf skothríð á skemmtistaðnum, sem er fyrir LGBT-fólk, þ.e. samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk, en hann féll síðar í skotbardaga við lögreglu.
Búið er að bera kennsl á árásarmanninn, en það var hinn 29 ára gamli Omar Mateen sem framdi voðaverkið. Að sögn lögreglu er hann talinn tengjast íslömskum öfgahópum, en árásin er rannsökuð sem hryðjuverk. Mateen var bandarískur ríkisborgari, en átti afganska foreldra. Hann var ekki á lista bandarískra stjórnvalda yfir hugsanlega hryðjuverkamenn, en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er hann þó sagður hafa verið til rannsóknar vegna annarra afbrota.
Á blaðamannafundi fyrr í dag tilkynnti lögregla að um tuttugu væru látnir eftir árásina, en það var borgarstjóri Orlando sem staðfesti að tala látinna væri nú komin í 50. Þetta er því mannskæðasta skotárásin af þessu tagi í sögu Bandaríkjanna.
Um klukkan tvö eftir miðnætti að staðartíma hóf árásarmaðurinn skothríð inni á skemmtistaðnum, en að sögn lögreglu var maðurinn vopnaður árásarriffli og skammbyssu.
Að sögn lögreglu fór árásarmaðurinn svo út af skemmtistaðnum, en fór stuttu síðar aftur inn og hóf skothríð að nýju. Í kjölfarið hafi hann tekið fólk í gíslingu inni á staðnum, en um klukkan fimm eftir miðnætti að staðartíma réðst lögregla inn á staðinn og bjargaði fólkinu.
Sprengjusérfræðingar og sérsveitarmenn sprengdu vegg á skemmtistaðnum til að komast inn og felldu svo árásarmanninn í skotbardaga. Um þrjátíu manns var bjargað í aðgerðinni. Einn lögregluþjónn særðist í átökunum.
Um er að ræða aðra skotárásina í Orlando á rúmum sólarhring, en á föstudagskvöld var söngkonan Christina Grimmie skotin til bana eftir tónleika í borginni. Að sögn lögreglu er engin tenging á milli árásanna.