Sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna

Fimmtíu eru látnir og 53 særðir eftir skotárás sem gerð var á Pul­se-skemmti­staðnum í Or­lando í Flórída í Banda­ríkj­un­um í nótt. Árásarmaður hóf skothríð á skemmtistaðnum, sem er fyr­ir LGBT-fólk, þ.e. sam­kyn­hneigða, tví­kyn­hneigða og trans­fólk, en hann féll síðar í skotbardaga við lögreglu. 

Búið er að bera kennsl á árásarmanninn, en það var hinn 29 ára gamli Omar Mateen sem framdi voðaverkið. Að sögn lög­reglu er hann tal­inn tengj­ast ís­lömsk­um öfga­hóp­um, en árásin er rannsökuð sem hryðjuverk. Mateen var bandarískur ríkisborgari, en átti afganska foreldra. Hann var ekki á lista bandarískra stjórnvalda yfir hugsanlega hryðjuverkamenn, en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er hann þó sagður hafa verið til rannsóknar vegna annarra afbrota.

Á blaðamannafundi fyrr í dag tilkynnti lögregla að um tuttugu væru látnir eftir árásina, en það var borgarstjóri Orlando sem staðfesti að tala látinna væri nú komin í 50. Þetta er því mannskæðasta skotárásin af þessu tagi í sögu Bandaríkjanna.

Um klukk­an tvö eft­ir miðnætti að staðar­tíma hóf árás­armaður­inn skot­hríð inni á skemmti­staðnum, en að sögn lög­reglu var maður­inn vopnaður árás­arriffli og skamm­byssu.

Að sögn lög­reglu fór árás­armaður­inn svo út af skemmti­staðnum, en fór stuttu síðar aft­ur inn og hóf skot­hríð að nýju. Í kjöl­farið hafi hann tekið fólk í gísl­ingu inni á staðnum, en um klukk­an fimm eft­ir miðnætti að staðar­tíma réðst lög­regla inn á staðinn og bjargaði fólk­inu.  

Sprengju­sér­fræðing­ar og sér­sveit­ar­menn sprengdu vegg á skemmti­staðnum til að kom­ast inn og felldu svo árás­ar­mann­inn í skot­b­ar­daga. Um þrjá­tíu manns var bjargað í aðgerðinni. Einn lög­regluþjónn særðist í átök­un­um.

Um er að ræða aðra skotárás­ina í Or­lando á rúm­um sól­ar­hring, en á föstu­dags­kvöld var söng­kon­an Christ­ina Grimmie skot­in til bana eft­ir tón­leika í borg­inni. Að sögn lög­reglu er eng­in teng­ing á milli árás­anna.

Skotárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse.
Skotárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert