Með því að sverja samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki tryggð sína tengdi byssumaðurinn Omar Mateen sig við meira en bara öfgasinnaða hryðjuverkamenn. Mateen, sem í fyrrinótt myrti 50 manns og særði 53 á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando, stillti sér þar með upp með hópi sem hefur ofsótt af miskunnarleysi og grimmd þá sem taldir eru bregða út af meginstraumi kynferðis.
Eins og CNN greinir frá verður hinsegin fólk fyrir hrottalegu ofbeldi á yfirráðasvæðum fyrrnefndra samtaka þar sem það er reglulega leitað uppi og myrt. Það er pyntað, skotið af aftökusveitum, afhöfðað, brennt og grýtt til dauða. Frá þessu greina vitni auk þess sem samtökin gefa gjarnan út myndskeið af voðaverkunum.
Í ágúst síðastliðnum, á fyrsta fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nokkru sinni um stöðu mála hinsegin fólks í heiminum, greindi íraskur maður frá: „Í mínu samfélagi þýðir samkynhneigð dauði.“
Hann bætti því við að þegar samtökin „myrða samkynhneigða eru flestir ánægðir af því að þeir halda að við séum ill.“ Hann lýsti því hvernig samtökin nota símaskrá og lista yfir Facebook-vini þeirra sem grunaðir eru um samkynhneigð til að finna aðra og leita þá uppi. „Og það er eins og domino-kubbar,“ sagði hann, „ef einn fellur verða hinir teknir niður líka.“
Annar maður, Subhi Nahas, sem flýði heimili sitt í Sýrlandi, sagði frá því hvernig samkynhneigðum karlmönnum væri fleygt ofan af byggingum og hvernig aftökurnar væru fangaðar á myndskeið sem birt væru á netinu.
„Ef fórnarlamb dó ekki,“ sagði Nahas, „grýttu bæjarbúar hann til dauða.“
Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, Al Qaeda og aðrir hryðjuverkahópar réttlæta slíkt ofbeldi sem hluta trúarbragða sinna.
Þeirri hugmynd hafnaði Nihad Awad, framkvæmdastjóri Amerísk-íslamska samskiptaráðsins (e. Council on American-islamic Relations) í snatri eftir árásirnar í Orlando.
„Þetta er hatursglæpur. Það er svo einfalt. Við fordæmum hann eins sterklega og mögulegt er. Hann brýtur gegn grunngildum okkar sem Bandaríkjamenn og sem múslimar. Leyf mér að taka það skýrt fram, við höfum enga þolinmæði gagnvart nokkurs konar öfgum. Við megum ekki umbera hatursfulla orðræðu sem kyndir undir ofbeldi gagnvart minnihlutahópum.“
Ofsóknir gegn fólki utan hins tilbúna „norms“ kyns og kynferðis eru þó viðtekin iðja víða í heiminum og það ekki bara af hendi öfgahópa.
Í nýlegri skýrslu alþjóðasamtakanna ILGA er vitnað til yfir 70 landa þar sem samkynhneigð er bönnuð en mörg þeirra landa eru í einum hnapp á því svæði þar sem samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki standa hvað sterkast.
Í 13 ríkjum (eða á ákveðnum svæðum þeirra) segir skýrslan dauðarefsingu liggja við „samkynhneigðri hegðun“.
Einn meðhöfunda skýrslunnar, Aengus Carrol, bendir á hvernig ofsóknir og refsingar gagnvart hinsegin fólki eru stundum huldar undir yfirskyni málareksturs, en ofsóknirnar séu augljósar. Hann notar Írak sem dæmi þar sem „dómarar og skæruliðar handtaka, rétta yfir og taka af lífi fólk sem talið er tjá kynhneigð sína á máta sem litið er á sem bannaðan.“
Eins og fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, orðaði það eftir fyrrnefndan fund öryggisráðsins: „Þetta er ekki mál sem er á nokkurn hátt einangrað við ISIL... Það eru lönd sem hafa gert LGBT-stöðu saknæma.“
Hvort byssumaðurinn í Orlando hafi verið meðvitaður um slíkt kerfisbundið ofbeldi er ekki vitað. Nákvæmar hvatir hans til árásarinnar og ástæður þess að þessi tiltekni skemmtistaður varð fyrir valinu er einnig ráðgáta. Það sem við vitum hins vegar er að fjölskylda Mateen segir hann hafa tjáð viðhorf andsnúið samkynhneigðum og að hann sagði lögreglu að hann styddi samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Og, oft á tíðum, helst þetta tvennt í heldur.