Hundruð grímuklæddra mótmælenda köstuðu hlutum að lögreglu í París í dag, þar sem mótmæli gegn umbótum á vinnulöggjöf fóru fram. Sex voru handteknir og að minnsta kosti tveir eru slasaðir eftir átökin.
„Ég hef mætt á öll mótmæli síðan í mars því ég vil lifa mannsæmandi lífi, ekki bara komast af,“ segir Aurelien Boukelmoune, sem tók þátt í mótmælunum í dag. „Ég vil að umbæturnar verði dregnar til baka. Aðeins þá mun þetta hætta. Ríkisstjórnin ætti að draga þær til baka, annars stöðvum við allt atvinnulíf.“
Mótmælin fara fram á sama tíma og öldungadeild franska þingsins ræðir umbæturnar, sem er ætlað að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri og draga úr atvinnuleysi.
Búist er við því að öldungadeildin, þar sem þingmenn stjórnarandstöðu eru í meirihluta, reyni að koma á breytingum sem eru hagstæðari vinnumarkaðnum, en umræðu um málið lýkur 24. júní og kosið verður fjórum dögum síðar. Komist báðar deildir franska þingsins ekki að niðurstöðu, mun neðri deild þingsins hafa lokaorðið og gæti forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, því komið breytingunum í gegn.
Francois Hollande, Frakklandsforseti segist vonast til þess að mótmælunum fari nú að linna. Philippe Martinez, sem fer fyrir stéttarfélaginu CGT, sem stendur m.a. fyrir verkfalli lestarstarfsmanna, er á öðru máli og vonast eftir fleiri mótmælendum en í mars. Samkvæmt CGT mótmæltu þá 1,2 milljónir manna, en samkvæmt frönskum yfirvöldum var fjöldinn tæplega 400.000. Yfirmaður lögreglunnar í París, Michael Cadot, segist búast við „hugsanlega fleiri en 50.000 mótmælendum“ í höfuðborginni í dag.
Verkfallsaðgerðir héldu áfram í Frakklandi í dag, þegar Eiffel-turninum var lokað, en verkföll hafa haft slæm áhrif á ferðamannaiðnaðinn í Frakklandi, sem er enn laskaður eftir hryðjuverkin í París í nóvember. Samgöngur hafa raskast mikið, en auk lestarstarfsmanna hafa flugmenn Air France staðið í verkföllum sem hefur haft áhrif á fimmta hvert flug, að sögn flugfélagsins. Verkfalli flugmannanna á að ljúka í dag, en lestarstarfsmenn eru á fjórtánda degi verkfallsaðgerða.
Skoðanakannanir sýna að álit almennings gæti verið að snúast gegn mótmælendum. Samkvæmt könnun sem birtist á sunnudag eru 54% Frakka á móti verkfallsaðgerðunum. Svipuð könnun sem gerð var fyrir þremur vikum sýndi að meirihluti var þá hlynntur þeim.