Sagði árásina „frábæra“

Fórnarlambanna minnst í Orlando í dag.
Fórnarlambanna minnst í Orlando í dag. AFP

Ummæli baptistaprests í Kaliforníu hafa vakið mikla reiði en hann sagði árásina í Orlando, þar sem 49 voru drepnir á skemmtistaðnum Pul­se, „frábæra“. Pulse  var einna helst sótt­ur af LGBT-fólki, þ.e. sam­kyn­hneigðum, tví­kyn­hneigðum og trans­fólki en árásin um helgina er mann­skæðasta skotárs­in af þessu tagi í sögu Banda­ríkj­anna. 

„Í dag spurði fólk „Ertu ekki sorgmæddur að 50 sódómar dóu?“,“ sagði presturinn Roger Jimenez í Verity baptistakirkjunni í Sacramento á sunnudaginn, aðeins klukkustundum eftir ódæðið.

Sagði hann það eins og að spyrja hvort að einhver yrði sorgmæddur yfir því að 50 barnaníðingar létu lífið. „Hmm nei mér finnst það frábært. Ég held að þetta hjálpi samfélaginu. Ég held að Orlando sé aðeins öruggari í kvöld,“ bætti Jimenez við.

Ummælin voru birt á Youtube-síðu kirkjunnar en voru síðan tekin út. Þau hafa vakið gríðarlega hörð viðbrögð, bæði frá samfélagi LGBT-fólks og embættismanna.

Borgarstjóri Sacramento, Kevin Johnson, sagði meðal annars að ummæli Jimenez ættu ekkert skylt við kristin gildi og ættu sér engan stað í þeirra samfélagi.

Dave Garcia, sem stjórnar miðstöð LGBT fólks í Los Angeles, sagðist í samtali við AFP ekki vera hissa á ummælunum en sagði þau sorgleg.

„Þessir einstaklingar hafa ekki skotið eða drepið fólk úr samfélaginu en hlaða byssur sínar með hatursfullum ummælum.“

Jimenez hélt því þó fram að ummæli hans hafi verið tekin úr samhengi og að viðbrögðin við ummælunum væru árás á tjáningar- og trúfrelsi í landinu.

Sagði hann jafnframt að með ummælunum væri hann aðeins að vitna í Biblíuna og að þau endurspegli viðhorf margra í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert