Efri deild svissneska þingsins samþykkti í dag að umsókn Sviss um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin formlega til baka. Þetta kemur fram á vefsíðu svissneska þingsins. Utanríkisráðherra Sviss verður í framhaldinu formlega falið að tilkynna Evrópusambandinu um að umsóknin hafi verið dregin til baka.
Tillaga þessa efnis, sem lögð var fram af Lukas Reimann, þingmanni Svissneska þjóðarflokksins, var samþykkt í neðri deild þingsins í mars með 126 atkvæðum gegn 46. Tillagan var samþykkt í efri deildinni með 27 atkvæðum gegn 13. Tveir sátu hjá.
Sviss sótti um inngöngu í Evrópusambandið árið 1992 en eftir að svissneskir kjósendur höfnuðu aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í þjóðaratkvæðagreiðslu síðar sama ár ákváðu þarlend stjórnvöld að setja umsóknina til hliðar. Hún var fyrir vikið ekki formlega dregin til baka.
Frétt mbl.is: ESB-umsókn Sviss verði dregin til baka