Graffiti-listamaðurinn Casey Nocket hefur verið dæmd til 200 klukkustunda samfélagsþjónustu og til að greiða sekt eftir að hafa graffað andlit á fjöll í sex þjóðgörðum í Bandaríkjunum með akrílmálningu.
Samkvæmt dómnum má hún aldrei aftur heimsækja þjóðgarð í Bandaríkjunum, en þjóðgarðar eru um 20% af öllu landi í Bandaríkjunum.
Andlitin málaði Nocket í þjóðgörðunum í Death Valley, Coloradio National Monument, Canyonlands, Zion og Crater Lake.
Upp komst um ódæðið eftir að hún setti myndir af andlitunum á Instagram- og Tumblr-síðurnar sínar. Fóru þá notendur heimasíðunnar Reddit á stúfana og komust að því hver listamaðurinn að baki ódæðinu væri. Undir hvert einasta andlit sem hún málaði skrifaði hún Creepytings, sem er nafn heimasíðu hennar.
Erfitt reyndist að hreinsa akrílmálningu af berginu sem hún málaði á. Hún á að hafa skrifað undir myndirnar: „Ég veit það, ég er slæm manneskja.“
Margir notendur Reddit voru allt annað en ánægðir með þetta uppátæki hennar og sömu sögu er að segja um starfsmenn þjóðgarðanna.
Fljótlega fóru notendur Reddit að tala um hana sem „þjóðgarða-skemmdarvarginn,“ og komust þeir að því hver listamaðurinn væri í raun og veru.
Steve Yu, sem starfar hjá bandarísku þjóðgarðastofnuninni, sá umræðuna á Reddit en hann vann við að rannsaka skemmdarverkin. Fór þá svo að þjóðgarðarnir höfðuðu mál gegn henni fyrir skemmdarverkin.
„Þegar þú birtir skemmdarverk á þjóðgörðum á samfélagsmiðlum verða miðlarnir að mikilvægu rannsóknartæki fyrir okkur,“ segir Charles Cuvelier, yfirmaður eftirlitsdeildar bandarísku þjóðgarðanna, í samtali við The Guardian.
Margir notendur Reddit gengu þó yfir strikið og birtu persónuupplýsingar Nocket á vefsíðunni. Fjölskyldumeðlimur Nocket sagðist í fjölmiðlum vera farin að hafa áhyggjur af líðan hennar og heilbrigði. Eyddi Nocket vefsíðunni sinni stuttu síðar og stjórnendur Reddit minntu notendur síðunnar á að leyfa rannsókn málsins að klárast áður en stórar fullyrðingar væru látnar flakka. Einnig sögðu þeir fólki að hætta að hóta henni.
Nocket var ákærð í júní og játaði hún á sig öll brotin sem henni voru gefin að sök. Þann 13. júní var hún svo að lokum dæmd í 200 klukkustunda samfélagsþjónustu og til að greiða skaðabætur. Þá fær hún aldrei aftur að heimsækja þjóðgarða í Bandaríkjunum og verður hún að skila inn skriflegri afsökunarbeiðni til starfsmanna þjóðgarðanna.
„Einstaklingar halda kannski að svona brot séu aðeins lítil og ómerkileg en þegar kemur að því að vernda þjóðgarðana okkar þá geta svona mál haft gríðarleg áhrif. Viðkvæm svæði hafa eyðilagst út af svona hegðun. Við verðum að vernda þau,“ segir Cuvelier.
Sjá frétt The Guardian.