Fóstureyðingum hefur fjölgað í Mið- og Suður-Ameríku vegna ótta við Zika-veiruna. Niðurstaða nýrrar könnunar gefur til kynna að þær hafi að minnsta kosti tvöfaldast í Brasilíu og aukist um þriðjung í öðrum löndum.
Zika-veiran, sem berst með moskítóflugum og kynmökum, er talin geta valdið fæðingargalla í börnum og hafa konum á þeim svæðum þar sem veiran hefur verið mest áberandi verið ráðlagt að reyna ekki að verða óléttar.
Fóstureyðingar eru ólöglegar í mörgum löndum Mið- og Suður-Ameríku og hafa því konur leitað í auknum mæli til ólöglegra aðila til þess að fara í aðgerðina. Samtökin Women on Web eru þar á meðal en í gegnum þau er hægt að fá sendar töflur sem eiga að binda endi á meðgöngu.
Í rannsókninni sem var birt í The New England Journal of Medicine kemur fram að mikil aukning í beiðnum til Women on Web hafi verið á tímabilinu 17. nóvember 2015 til 1. mars 2016. Rannsakendur fóru yfir þúsundir umsókna sem borist hafa samtökunum síðustu fimm árin.
Samkvæmt rannsókninni jókst hlutfall fóstureyðinga á tímabilinu þar sem varað var við því að konur yrðu óléttar um 108% í Brasilíu og Ekvador, 93% í Venesúela og 76% í Hondúras. Þá var aukningin 39% í Kólumbíu og 36% í Kosta Ríka og El Salvador.
Tölur frá löndum þar sem stjórnvöld ráðlegðu konum ekki sérstaklega að forðast að verða óléttar sýndu minni aukningu.
Ein kona frá Perú sagðist mjög áhyggjufull í samtali við Women on Web en hún er komin tvo mánuði á leið og Zika hefur greinst í heimalandi hennar.
„Við erum öll mjög hrædd og ég vil ekki eiga veikt barn, ég vil ekki halda þessari meðgöngu áfram því hún er mjög hættulegt.“
Önnur frá Venesúela sagðist hafa smitast af Zika fjórum dögum áður. „Ég elska börn en ég held að það sé ekki gáfulegt að halda barni sem mun þjást. Ég þarf fóstureyðingu. Ég veit ekki hvert ég á að leita. Hjálpið mér.“
Catherine Aiken, sem tók þátt í rannsókninni fyrir háskólann í Cambridge, sagði í samtali við BBC það varhugavert af stjórnvöldum að vara konur við því að verða óléttar. Sagði hún skilaboðin hafa skapað ótta, kvíða og hræðslu án þess að stjórnvöld hafi gert eitthvað til þess að bregðast við því.