Skotárás í Þýskalandi

Lögreglumenn við kvikmyndahúsið í dag.
Lögreglumenn við kvikmyndahúsið í dag. AFP

Grímuklæddur maður, sem er talinn hafa hafið skothríð í kvikmyndahúsi í Viernheim, nálægt Frankfurt, í vesturhluta Þýskalands í dag, hefur verið skotinn til bana af lögreglu, að sögn innanríkisráðherra Þýskalands.

Talið er að maðurinn hafi hleypt af að minnsta kosti fjórum skotum í Kinopolis-kvikmyndahúsinu í borginni.

Ráðherrann, Peter Beuth, segir að lögreglumenn hafi ráðist inn í kvikmyndahúsið eftir að tilkynning barst um skothvelli.

„Lögreglan hélt að byssumaðurinn væri með gísla í haldi og þess vegna var hann skotinn til bana,“ bætti ráðherrann við.

Hann segir að enginn annar hafi særst. Þó kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins að margir hafi örmagnast vegna táragass sem lögreglan beitti þegar hún réðst inn í húsið.

Lögreglubílar við kvikmyndahúsið í Viernheim.
Lögreglubílar við kvikmyndahúsið í Viernheim. AFP

Mikill viðbúnaður lögreglu var á svæðinu en vopnaðir lögreglumenn umkringdu kvikmyndahúsið eftir að tilkynnt var um byssumanninn og réðust síðan inn.

Innanríkisráðherrann sagði að lögreglan hefði fengið tilkynningu klukkan 14:45 að staðartíma um grímuklæddann mann, vopnaðan byssu. Ekki er vitað hvort um raunverulega byssu hafi verið að ræða.

Sá sem tilkynnti um atvikið sagðist hafa heyrt fjóra skothvelli. Hann nefndi að svo hefði virst sem grímuklæddi maðurinn hafi verið í andlegu ójafnvægi. Sérsveitir voru kallaðar út.

Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine segir ekki liggja fyrir hvort um vopnað rán hafi verið að ræða.

Frétt BBC

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert