Á meðan árásarmennirnir skutu á fólk af handahófi og kveiktu í sprengjum hlupu farþegar og aðrir flugvallargestir á Ataturk-flugvelli í Istanbúl eins og fætur toguðu.
„Það var sprengja,“ vörurðu ferðamenn hver annan við. „Einhver er að koma með byssu.“
Þrír hryðjuverkamenn vopnaðir sprengjum og skotvopnum myrtu í það minnsta 41 einstakling á flugvellinum. Af sprengjumönnunum þremur voru tveir í utanlandshluta flugstöðvarbyggingarinnar og sá þriðji var á nálægu bílastæði. Allir sprengdu þeir sig upp með sjálfsmorðssprengjuvestum.
Samkvæmt CNN höfðu ferðamenn og starfsfólk flugvallarins lítinn tíma til að átta sig á atburðunum.
„Þetta var eins og í helvíti,“ sagði Mine Lyidinc. „Það var óðagot alls staðar. Við skildum ekki að þetta væri hryðjuverkaárás.“
Will Carter hafði verið á farangurssvæðinu þegar hann fann hristing, sem hann lýsir sem „lágum dynk“ vegna tveggja sprenginga. Turner skynjaði að ekki væri allt með feldu þar sem höggbylgja virtist endurkastast í gegnum flugvöllinn.
„Hún var nógu há til að ég vissi að það var ekki allt í lagi,“ sagði hann. Um mínútu síðar fann hann fyrir þriðju sprengingunni. Í þetta skipti sá hann „glampann af eldhnetti“ inni í flugstöðvarbyggingunni. Öskur og ringulreið tóku yfir bygginguna í því sem Turner og aðrir farþegar flýðu.
Aðeins mínútum áður en ein af sprengjunum sprakk kveðst flugvallarstarfsmaðurinn Levent Karaoglan hafa gengið fram hjá svæðinu þar sem sprengingin var. Hann var inni í flugvél þegar hann heyrði sprenginguna.
„Sprengingin skók mig jafnvel þótt ég væri inni í flugvélinni,“ sagði Karaoglan. „Þegar ég kom aftur inn á flugvöllinn var allt þakið reyk, allir gluggarnir voru mölbrotnir og fólk flökti um í æsingi.“
Í óðagoti hóf hann að leita að samstarfsmönnum sínum. Sprengingin var nálægt afgreiðsluborðinu þar sem hann vinnur vanalega.
„Samstarfsmenn mínir sem vinna við miðasöluborðið voru á jörðinni og grátandi,“ sagði hann. „Nokkrir vinir mínir eru særðir, fengu hluti í höfuðið.“
Það sem hann sá ásækir hann. „Margir féllu í valinn, fótleggir, handleggir og allt, alls staðar.“
Þeir sem lifðu árásina af gengu í gegnum eyðilegginguna á flugvellinum. Þeir ösluðu brotið glerið og molnaða hluta þaksins á gólfinu. Loftið lyktaði eins og þungur heitur reykur og blóðpollar mynduðust á gólfinu.
Richard Kalnins var nýlentur og á leið í vegabréfaeftirlit þegar fólk tók að hlaupa í áttina að honum æpandi „sprengja“ og „skothríð“ og allir sneru við og fóru að hlaupa líka. Hópurinn endaði fastur á gangi með engri undankomuleið.
„Skelfing greip um sig,“ sagði hann. „Frekar ógnvekjandi aðstæður, að vita ekki hvað var að gerast, fastur á gangi og hugsa að hinum megin við hornið væri kannski einhver hlaupandi um með riffil.“
Hópurinn gat yfirgefið bygginguna þremur tímum síðar.
Utan við bygginguna biðu örvæntingarfullir fjölskyldumeðlimir og vinir eftir fregnum af ástvinum sínum og teygðu sig til að sjá hvort þeir sæju kunnugleg andlit meðal ringlaðs skarans sem út kom. Fólk hélt á loft blöðum með nöfnum ástvina sinna og beið fregna.
Búningar lögreglumanna voru gegnvotir af blóði að sögn ferðamannsins Fatos Karahasans, sem var inni í flugvél sem var nýlent þegar árásin hófst.
Þegar Karahasan og öðrum farþegum var hleypt úr vélinu gengu þeir í gegnum flugstöðvarbygginguna í algerri þögn á meðan sírenur sjúkrabíla bergmáluðu úti fyrir.
„Dauðaþögn fyllti flugvöllinn allt um kring,“ sagiði Karahasan. „Það var harmþrungið. Það er skelfilegt að sjá menningarlega höfuðborg lands í slíku ástandi, undir slíkum kringumstæðum.“
Thomas Kemper var í setustofu Turkish Airlines þegar sprengjurnar sprungu. „Allir byrjuðu að hlaupa og fóru í allar áttir,“ sagði hann. Hann endaði sjálfur í bakherbergi við eldhúsið þar sem hann faldi sig bak við kassa ásamt öðrum manni.
„Þú hefur þessar hugmyndir um að hryðjuverkamaðurinn komi og reyni að drepa þig,“ sagði hann. „Þú hefur þessar sögur af Orlando og París og þú heldur að nú séu þeir að koma eftir þér.“
Öryggisverðir hjálpuðu öllum út eftir 30 til 40 mínútur.
Kemper er aðalritari stjórnar Heimssamtaka kirkju meþódista en segir flesta sem voru með honum í setustofunni hafa verið múslima.
„Þetta er augnablik sem ætti að dýpka samstöðu okkar með öllum þeim sem þjást vegna ofbeldis og ógnar,“ sagði hann. „Ég fann fyrir þessari sameiginlegu manngæsku í okkur, sama hver trú okkar er, að við þurfum að rétta út arma, takast í hendur og breyta þessu.“