Enginn byssumaður gengur laus í Andrews-herstöðinni í Maryland í Bandaríkjunum líkt og talið var í fyrstu. Lögreglan hefur nú leitað af sér allan grun og segir enga hættu á ferðum.
Frétt mbl.is: Telja byssumann í herstöðinni
Í dag átti að fara fram æfing í herstöðinni þar sem mörg þúsund hermenn og fjölskyldur þeirra búa. Átti að æfa viðbrögð við skotárás. Áður en hún hófst bárust hins vegar upplýsingar um að raunverulegur byssumaður væri á sjúkrahúsi herstöðvarinnar. Var þá ákveðið að loka svæðinu og kalla til sjúkralið. Búið er að aflétta lokun í herstöðinni nema á sjúkrahúsinu.
Í frétt Washington Post segir að líklega hafi verið um mikinn misskilning að ræða. Einhver á herstöðinni, sem vissi ekki af fyrirhugaðri æfingu, hringdi í neyðarlínuna, 911, og sagðist hafa séð byssumann. Vegna þessa símtals tók lögreglan enga áhættu og gerði viðeigandi ráðstafanir. Yfirmenn herstöðvarinnar gerði slíkt hið sama og settu inn færslur á Twitter um að „raunverulegur byssumaður“ væri á staðnum.
Í herstöðinni er flugvél forsetans, Air Force One, geymd. Joe Biden varaforseti átti að koma þangað í dag og fara um borð í vélina. Ferð hans var frestað vegna fregna um byssumanninn.
"All Clear." The lock down on base has been lifted
— Joint Base Andrews (@JBA_NAFW) June 30, 2016