Rússar sperra stélið yfir Eystrasalti

Rússnesk Sukhoi herþota.
Rússnesk Sukhoi herþota. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa fyrirskipað hermálayfirvöldum að leggja drög að aðgerðum til að tryggja öryggi í lofthelginni yfir Eystrasalti. Röð atvika í lofthelginni hefur valdið aukinni spennu í samskiptum Atlantshafsbandalagsins og Rússa, en aðilar eru ekki á eitt sáttir um hverjum er um að kenna.

Varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu hefur skipað hernum að þróa verkferla til að auka flugöryggi á svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Nágrannar Rússlands við Eystrasalt hafa sakað stjórnvöld í Moskvu um að brjóta ítrekað gegn lofthelgi ríkjanna á síðustu mánuðum og slökkva á tækjabúnaði sem gerir ratsjám kleift að staðsetja og bera kennsl á loftför og koma í veg fyrir árekstra.

Þá hafa rússneskar vélar verið sakaðar um hættulega gjörninga yfir Eystrasalti, en í apríl sl. flaug rússnesk Sukhoi-þota í aðeins 15 metra fjarlægð frá bandarískum tundurspilli.

Stjórnvöld í Moskvu hafa hins vegar aðra sögu að segja en NATO-ríkin og hafa sakað Bandaríkjamenn um að fljúga njósnavélum á svæðinu, sem krefst þess að Rússar sendi herþotur í loftið til að bera kennsl á vélarnar.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði síðast í gær að herþotur NATO færu tvisvar sinnum oftar um svæðið án staðsetningarbúnaðar en rússneskar herþotur og hét því að taka málið upp á fyrirhuguðu þingi Rússa og NATO.

Rússar þykja í auknum mæli beina sjónum sínum að Eystrasalti og í vikunni var fjölda yfirmanna rússneska flotans á svæðinu sagt upp störfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert