Vígamennirnir sjö sem myrtu tuttugu manns í árás á Holey Artisan Bakery-kaffihúsið í Bangladess á föstudag voru allir vel menntaðir og úr efnuðum fjölskyldum. Sex þeirra voru skotnir til bana af lögreglumönnum þegar áhlaup var gert á kaffihúsið eftir tólf tíma umsátursástand en einn þeirra náðist á lífi.
Einn vígamannanna var útskrifaður úr besta einkaskóla Bangladess, annar var 18 ára nemandi í virtum skóla og enn annar var sonur stjórnmálamanns.
„Þetta eru allt hámenntaðir ungir menn úr vel efnuðum fjölskyldum,“ sagði Asaduzzaman Khan innanríkisráðherra í samtali við AFP-fréttastofuna. Spurður hvers vegna þeir hefðu gerst öfgamenn og viljað heyja heilagt stríð sagði Khan: „Það er í tísku.“
Khan hefur áður sagt að vígamennirnir hafi ekki verið á vegum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, heldur hafi verið um að ræða heimamenn í bangladesskum öfgasamtökum sem hafa verið bönnuð í landinu í meira en áratug.
Ríki íslams hafði áður lýst yfir ábyrgð á árásinni, en samtökin birtu meðal annars myndir af meintum árásarmönnum fyrir framan svartan ISIS-fána.
Tuttugu gíslar, flestir þeirra útlendingar, voru myrtir í árásinni. Tveir lögregluþjónar létu lífið og þrjátíu manns særðust. Liðsmenn öryggissveitarinnar björguðu þrettán manns eftir um tólf klukkutíma gíslatöku og umsátursástand. Þeir drápu sex vígamenn í leiðinni og handtóku einn.
Níu Ítalir, sjö Japanir, einn bandarískur ríkisborgari og einn Indverji voru á meðal þeirra sem myrtir voru.
Árásarmennirnir aðskildu útlendinga frá innlendum gestum staðarins. Morðingjarnir beittu eggvopnum á fórnarlömb sín.
Frétt mbl.is: „Guð vill að þú deyir“
Frétt mbl.is: Gíslataka á kaffihúsi í Bangladess
Frétt mbl.is: Níu Ítalir myrtir í Dhaka
Frétt mbl.is: Skildu að útlendinga og heimamenn
Frétt mbl.is: Gíslatakan í Dhaka yfirstaðin