Bresk stjórnvöld tóku ákvörðun um að ráðast inn í Írak áður en friðsamlegar lausnir höfðu verið reyndar til hlítar. Stríð var því ekki afarkostur í stöðunni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Chilcot-skýrslunni svokölluðu sem formaður nefndarinnar, sir John Chilcot, kynnti fyrir stundu.
Rannsóknarnefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að upplýsingar sem réttlættu innrásina hefðu verið lagðar til grundvallar „af fullvissu sem var ekki réttlætanleg“. Þá hefði undirbúningi fyrir lok og eftirleik stríðsins verið fullkomlega ábótavant.
Að sögn Chilcots hvatti Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Breta, George Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, til að taka upp málefni Íraks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2002. Í kjölfarið samþykkti öryggisráðið ályktun 1441, sem gerði ráð fyrir að brot af hálfu Íraks væru tilkynnt ráðinu.
Í desember 2002 hefði Bush hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna myndu ekki ná tilskildum árangri. Í janúar hefði Blair samþykkt áætlun Bandaríkjamanna um að hefja stríðsrekstur um miðjan mars. Að sögn Chilcots samþykkti Bush að freista þess að fá öryggisráðið til að samþykkja aðra ályktun en í mars hefði orðið ljóst að það myndi ekki verða.
Chilcot segir að flest þau ríki sem áttu sæti í öryggisráðinu hafi ekki verið sannfærð um að allra friðsamlegra lausna hefði verið leitað. Þá hafi Blair og Bush kennt Frökkum um að standa í vegi fyrir aðgerðum og sakað þá um að grafa undan valdi öryggisráðsins.
Það er hins vegar niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að það hafi verið Bandaríkjamenn og Bretar sem grófu undan valdi öryggisráðsins, þar sem þeir þrýstu á um hernaðaraðgerðir án þess að friðsamlegir kostir hefðu verið fullreyndir.
Rannsóknarnefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að upp hefði komið fjöldi tilfella þar sem stefnumótun varðandi Írak hefði þurft að ræða í ríkisstjórninni en það hefði ekki verið gert.
Að sögn Chilcots lagði Blair fram upplýsingar um gjöreyðingarvopn Íraksstjórnar með fullvissu sem var ekki réttlætanleg. Blair sagði þingmönnum að einhvern tíma í framtíðinni yrði ógnin vegna gjöreyðingarvopna Íraka raunveruleg. Þá sagði hann að hætta væri á því að gjöreyðingarvopn kæmust í hendur hryðjuverkahópa.
Blair hafði hins vegar verið varaður við því að innrás inn í Írak myndi auka ógnina af al-Kaída og líkurnar á því að hryðjuverkamenn kæmust yfir vopn.
Að sögn Chilcots er ljóst að stefnumótun varðandi Írak byggðist á ófullkomnum upplýsingum og mati. Blair og Jack Straw, þáverandi utanríkisráðherra, hafi sagt að Írakar ættu umtalsverðar birgðir af gjöreyðingarvopnum. Þá hafi Blair sagt eftir stríð að Saddam Hussein ætlaði sér að beita gjöreyðingarvopnum, en því hafi hann ekki haldið fram fyrir stríð.
Rannsóknarnefndin hafnar þeim staðhæfingum Blairs að það hafi verið ómögulegt að sjá fyrir þau vandamál sem upp komu í kjölfar innrásarinnar. Bresk stjórnvöld hefðu talið að Sameinuðu þjóðirnar yrðu í forsvari fyrir þau stjórnvöld sem tækju við völdum í Írak, en þetta hefðu stjórnvöld í Bandaríkjunum ekki samþykkt.
Að sögn Chilcots komst nefndin að þeirri niðurstöðu að umfang aðgerða Breta í Írak í kjölfar stríðsins hefði aldrei verið í takt við umfang þeirrar áskorunar sem þeir stóðu andspænis. Bretar hefðu átt aðkomu að átökum í Írak og Afganistan á sama tíma en ekki haft burði til þess.
Það var samhljóma niðurstaða nefndarinnar að í mars 2003 hefði ekki verið nauðsynlegt að efna til stríðsátaka í Írak. Öll hernaðarinngrip krefðust umræðu og íhugunar, sem hefði ekki átt sér stað í þessu tilfelli.