Evrópuþingið samþykkti í dag að stofna nýja landamæragæslu til að taka á flóttamannavandanum. Gæslusveitinni er ætlað að standa vaktina á landamærum landa á borð við Grikkland og Ítalíu frá og með september á þessu ári.
Frá greinir AFP en þar segir að stofnun gæslusveitarinnar hafi verið samþykkt með 483 atkvæðum gegn 181. 48 sátu hjá. Áætlað er að sveitin taki til starfa í september, líkt og sagði að framan, en hann verði endanlega tilbúinn í nóvember.
Nokkur ríki Evrópusambandsins hafa á undanförnu misseri tekið upp landamæraeftirlit að nýju sem hafði verið aflagt eftir að Schengen-samstarfið tók til starfa. Er það vegna flóttamannastraumsins en rúmlega ein milljón flóttamanna og innflytjenda hefur komið til Evrópu frá því í ársbyrjun 2015.
Samþykkt Evrópuþingsins í dag felur í sér heimildir ríkja til þess að sjá áfram um eftirlit á landamærum sínum en þau geta nú kallað eftir neyðaraðstoð úr landamæragæslusveitinni sem mun telja a.m.k. 1.500 landamæraverði.