Obama fordæmir árásir á múslima

Barack Obama.
Barack Obama. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti fordæmir árásir á múslima í Bandaríkjunum. Skilaboðin koma nú á Eid-hátíðinni á síðasta degi föstumánuðar múslima, Ramadan. Ætla bandarísku forsetahjónin að halda veislu í Hvíta húsinu í tilefni þess. The Independent greinir frá þessu.

Hatursglæpir gegn múslimum í Bandaríkjunum og hryðjuverk víða um heim setja svartan blett á hátíðarhöldin í ár. Obama minntist á glórulaust ofbeldi síðustu mánaða; allt frá skotárásinni í Orlando og sprengjuárásinni á flugvellinum í Istanbúl til grimmdarverka í Bangladess, Írak og Sádi-Arabíu. Sagði hann marga þeirra saklausu borgara sem létust í þessum árásum hafa verið múslima.

„Hér heima höfum við líka séð fleiri árásir sem beint er að múslimum“, sagði hann, en nýverið var læknir sem var múslimi skotinn og stunginn fyrir utan mosku í Texas. „Enginn ætti að upplifa sig óöruggan eða vera hræddur á bænastað sínum.“ Þá urðu tveir múslimar fyrir hrottalegri líkamsárás fyrir utan mosku í Brooklyn í vikunni og einn varð fyrir því sama fyrir utan mosku í Flórída.

„Þessa Eid-hátíð skulum við vernda bandaríska múslima fyrir þröngsýni og útlendingahatri og fagna framlagi þeirra um allt land, þar á meðal okkar besta, meistara fólksins, Muhammed Ali, sem kvaddi okkur þennan Ramadan-mánuð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert