Veiddu 50 grindhvali í Færeyjum

Frá grindhvalaveiðum Færeyinga.
Frá grindhvalaveiðum Færeyinga. Skjáskot/Local.fo

Færeyingar veiddu hátt í 50 grindhvali í morgun við lítinn fögnuð náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd. Hópurinn sagði í morgun að hvölunum hefði verið smalað að ströndinni „þar sem þeim var slátrað af heimamönnum,“ sagði í yfirlýsingu Sea Shepherd.

Talsmaður færeysku ríkisstjórnarinnar sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að grindadráp væru mikilvægur þáttur í menningu og sögu landsins og að hvalkjötið og hvalspikið sé í miklum metum hjá heimamönnum.

„Hvalveiðar í Færeyjum eru framkvæmdar í samræmi við alþjóðleg lög og lögmálinu sem gildir um allan heim um sjálfbæra þróun,“ sagði Páll Nolsoe, talsmaður ríkisstjórnarinnar.

Hann sagði aðgerðir Sea Shepherd vera ólöglegar og hættulegar og sakaði samtökin um óhróður í fjölmiðlum. Færeyingar hafa átt í erjum við Sea Shepherd á undanförnum árum vegna hvalveiðanna. Á síðasta ári komu færeysk yfirvöld í veg fyrir að 21 liðsmaður samtakanna fengi að koma til landsins með skipi á grundvelli innflytjendalöggjafar og hagsmuna landsins af því að viðhalda lögum og reglu.

Ríkisstjórn Færeyinga samþykkti fyrr á þessu ári lagafrumvarp sem kveður á um að skipum sé óheimilt að sigla inn fyrir lögsögu Færeyinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir grindadráp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert