Fjöldi fólks hefur kallað eftir því að Tony Blair, sem var forsætisráðherra þegar ákvörðun var tekin um þátttöku Breta í Íraksstríðinu, verði leiddur fyrir stríðsglæpadómstól. Ólíklegt þykir að Chilcot-skýrslan gefi tilefni til þess, enda mun nefndin ekki taka afstöðu til lögmætis stríðsins.
Mótmælendur og aðgerðasinnar hafa safnast saman í Lundúnum vegna birtingar Chilcot-skýrslunnar um aðkomu Breta að stríðinu. „Blair, stríðsglæpamaður,“ hrópa þeir m.a. en einn viðstaddra, Ben Griffin hjá Veterans for Peace, segir að ítrekað hafi verið brotið gegn Genfarsáttmálanum í Íraksstríðinu.
179 breskir hermenn féllu í Írak en samkvæmt samtökunum Iraq Body Count hafa á milli 160 og 179 þúsund almennir borgarar fallið í Írak frá innrásinni. Þetta er líklega vanmat, þar sem samtökin telja aðeins dauðsföll sem hafa verið staðfest af tveimur heimildum.
Samkvæmt rannsókn sem birtist í tímaritinu Lancet létu 655.000 Írakar lífið í átökunum.
Tveir breskir hermenn sem börðust í Írak gagnrýndu undirbúning átakanna og skort á búnaði í samtali við Today á útvarpsstöðinni BBC 4 í morgun. Annar þeirra sagði m.a. að þeir hefðu neyðst til að klæðast hefðbundnum herbúningi, „greens“, í stað felulita. Þegar Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra, hefði heimsótt herstöðina þar sem hermaðurinn dvaldi hefði hann verið beðinn að mæta ekki, þar sem ráðherrann vildi ekki sjá fólk klætt í „óviðeigandi“ klæðnað, þ.e. klæðnað sem hentaði ekki aðstæðum. Það myndi senda röng skilaboð.
Þá sagði John Miller, sem missti son sinn í Írak árið 2003, í samtali við Sky News í morgun að hann vonaðist til þess að Blair yrði ákærður fyrir stríðsglæpi.
Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn hefur til skoðunar meintar pyntingar og misþyrmingar af hendi breskra hermanna í Írakstríðinu. Dómstóllinn segist hins vegar ekki í aðstöðu til að taka afstöðu til þess hvort ákvörðun breskra stjórnvalda um að hefja stríð hafi verið lögmæt.
Gert er ráð fyrir að Tony Blair efni til blaðamannafundar seinna í dag. Þá hefur Jack Straw, þáverandi utanríkisráðherra, sagt að hann muni tjá sig ítarlega um Chilcot-skýrsluna þegar hann hefur lesið hana.