Stærsta mislingafaraldur sem nú geisar í Bandaríkjunum má rekja til sama innflytjendafangelsisins í Arizona. Heilbrigðisstarfsmenn segja að ástæðan sé að hluta sú að nokkrir starfsmenn þar hafa neitað að láta bólusetja sig.
Heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest 22 tilfelli mislinga í Arizona frá því í maí en þau tengjast öll Eloy-innflytjendafangelsinu sem einkafyrirtækið Corrections Corporation of America rekur fyrir innflytjenda- og tollayfirvöld.
Faraldurinn hófst líklega með innflytjanda en þeir sem eru í haldi á stofnuninni hafa síðan verið bólusettir. Erfiðara reyndist þó að fá starfsmenn stofnunarinnar til þess að láta bólusetja sig.
„Þannig að það eru þeir sem hafa smitað hver annan af mislingum og farið síðan út í samfélagið,“ segir Thomas Schryer, heilbrigðisstjóri Pinal-sýslu í Arizona, við AP-fréttastofuna.
Um 1.200 innflytjendur eru í haldi í fangelsinu og þar starfa hátt í 500 manns. Heilbrigðisyfirvöld í Arizona segja að síðustu daga hafi starfsmennirnir orðið viljugri til að láta bólusetja sig.
Mislingum var útrýmt í Bandaríkjunum árið 2000 en síðustu ár hafa ný tilfelli komið upp að hluta til vegna villandi upplýsinga um að bólusetningar séu hættulegar. Þannig hafa ýmsir kuklarar með aðstoð frægra einstaklinga eins og Jenny McCarthy og Robert de Niro breitt út áróður gegn bólusetningum, þar á meðal ósannindi um að þær valdi einhverfu í börnum sem hafa ítrekað verið hrakin.