Alls slösuðust 123 lögreglumenn í Berlín í nótt í átökum við vinstrisinnaða mótmælendur. Voru mótmælin þau öfgafyllstu í borginni í fimm ár að sögn lögreglu.
Ástæða mótmælanna var óánægja með endurskipulagningu á hverfi í austurhluta borgarinnar. Mun endurskipulagningin skila sér í hærra leiguverði og minni möguleikum efnaminna fólks til að búa á svæðinu.
Áttatíu og sex mótmælendur voru handteknir, og eiga að minnsta kosti þrír yfir höfði sér ákæru. Mótmælendur voru um 3.500 talsins og voru margir hverjir ofbeldishneigðir og köstuðu reyksprengjum og steinum í átt að lögreglumönnum. Þá var kveikt í bílum og rúður í verslunum brotnar.
Lögregla þurfti að beita táragasi til að leysa upp mótmælin.
Síðustu vikur hafa mótmælendur safnast saman fyrir framan blokk í hverfinu og hefur lögregla þurft að vakta svæðið allan sólarhringinn frá því í júní.