Alda mótmæla heldur áfram að breiða úr sér í bandarískum borgum í kjölfar nýlegra dauðsfalla svartra manna af völdum lögreglu í Minnesota og Louisiana.
Í Minnesota var flugeldum kastað og vegum lokað af mótmælendum og liðsmenn hóps sem kallar sig Nýjan flokk svörtu pardusana mættu lögreglu í Baton Rouge í Louisiana með vopnum.
Aðstæður í Dallas eru einnig spennuþrungnar en þar voru fimm lögreglumenn myrtir af svörtum manni á mótmælasamkomu. Öryggisstig var upprunalega hækkað eftir nafnlausar hótanir en gefið var grænt ljós á mótmælin eftir leit á bílastæði að „grunsamlegum aðila.“
Mótmælin, sem voru gegn lögregluofbeldi, komu til vegna dauða Philando Castile í Minnesota og Alton Sterling í Louisiana. Í St. Paul í Minnesota í nótt var flugeldum, flöskum og steinum grýtt í lögreglu þegar mótmælendur lokuðu einni af meginsamgönguæðum ríkisins og ollu umferðarteppu.
Tugir hafa verið handteknir en mótmæli hafa þó að mestu leyti farið friðsamlega fram. Þar á meðal má nefna mótmæli næturinnar í New York þar sem hundruð gengu, ýmist þegjandi eða kyrjandi „Ekkert réttlæti – enginn friður“. Þar var Delrawn Small, svarts manns sem skotinn var til bana af lögreglumanni 4. júlí, sérstaklega minnst. Myndband sem New York Post birti í gær sýnir augnablikið þar sem lögreglumaðurinn, sem var ekki á vakt, skaut tvisvar sinnum út um gluggann á bifreið sinni á Small, sem skjögrar, fellur og deyr á götunni.
Frændi Small, Zayanahla Vines, ávarpaði mótmælendur og sagði þeim frá viðbrögðum sínum við því að sjá myndbandið.
„Ég brotnaði niður, ég gat ekki hætt að gráta. En þetta snýst ekki um mig, þetta snýst um okkur sem fólk, þetta snýst um svart fólk í Bandaríkjunum [...] það þarf að taka enda, eitthvað þarf að breytast. Við erum öll hérna, deyjandi vegna lögreglunnar.“