Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði löndum sínum að örvænta ekki vegna spennunnar í landinu en hann minntist í dag lögreglumannanna fimm sem létu lífið í árás leyniskyttu í Dallas í Texasríki í síðustu viku.
Obama kom til borgarinnar í dag og sagði að íbúar hennar þyrftu að „finna merkingu í sorginni“ en mikill spenna ríkir í Bandaríkjunum vegna fregna af lögregluofbeldi gegn þeldökkum í landinu. Lögreglumennirnir voru að störfum við mótmæli gegn lögregluofbeldi þegar þeir voru skotnir af Micah Johnson, fyrrverandi hermanni.
Áður en hann lést í átökum við lögreglu sagðist Johnson vera reiður vegna drápa lögreglu á tveimur þeldökkum mönnum í Louisiana og Minnesota ríkjum nokkrum dögum fyrr.
Obama minntist lögreglumannanna við athöfn eins og fyrr segir í Dallas í morgun. Sagði hann þjóðina þjást vegna atburða síðustu daga og að þeir hafi sýnt „djúpa galla í lýðræðinu“.
„En ég er hér til þess að segja að við þurfum að hafna þessháttar örvæntingu. Ég er hér til þess að halda því fram að við erum ekki eins klofin og við virðumst,“ sagði forsetinn.
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ávarpaði sömu samkomu í morgun en hann er frá Texas. Hann hrósaði lögreglunni í hástert og sagði „hugrekki þeirra“ vernd þjóðarinnar og skjöld.
Þá mun forsetafrúin Michelle Obama hitta fjölskyldur fórnarlambanna á morgun ásamt Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna, og eiginkonu hans, Jill.