Það verður fátt um stjörnur á landsþingi repúblikana sem hefst á mánudaginn og gildir þá einu hvort rætt er um stjórnmálahöfðingja eða þungavigtarfólk í skemmtanabransanum. Fjöldi núverandi og fyrrverandi framámanna innan flokksins hyggst halda sig fjarri, enda hugnast mörgum þeirra ekki forsetaefnið útvalda.
Landsþingið fer fram í Cleveland og meðal þeirra sem koma fram eru Melania, eiginkona Trump, og dóttir hans Ivanka. Stærsta nafnið í stjórnmálunum verður Paul D. Ryan, forseti neðri deildar þingsins, en aðrir þekktir sem hafa tilkynnt um komu sína eru ólympíu- og raunveruleikastjarnan Caitlyn Jenner, tónlistarmaðurinn Kid Rock og hljómsveitin Lynyrd Skynyrd.
Meiri athygli vekur hverjir mæta ekki á þingið; hvorki Mitt Romney né John McCain hyggjast mæta né neinn Bush-feðganna þriggja.
Aðra sögu er að segja af demókrötum. Þegar landsþing Demókrataflokksins fer fram í Philadelphia munu stíga á svið Bill og Hillary Clinton, Barack og Michelle Obama og Elizabeth Warren. Bernie Sanders er einnig sagður munu stíga í pontu.
Meðal þotuliðsins sem mun sækja þingið verða Lady Gaga, Snoop Dogg, Fergie, Lenny Kravitz, Idina Menzel og Bryan Cranston.
Ítarlega frétt um málið má finna hjá Washington Post.