Enginn stjörnufans hjá Trump

Mætingin á landsþingið mun endurspegla óvinsældir Trump innan eigin flokks.
Mætingin á landsþingið mun endurspegla óvinsældir Trump innan eigin flokks. AFP

Það verður fátt um stjörnur á landsþingi repúblikana sem hefst á mánudaginn og gildir þá einu hvort rætt er um stjórnmálahöfðingja eða þungavigtarfólk í skemmtanabransanum. Fjöldi núverandi og fyrrverandi framámanna innan flokksins hyggst halda sig fjarri, enda hugnast mörgum þeirra ekki forsetaefnið útvalda.

Landsþingið fer fram í Cleveland og meðal þeirra sem koma fram eru Melania, eiginkona Trump, og dóttir hans Ivanka. Stærsta nafnið í stjórnmálunum verður Paul D. Ryan, forseti neðri deildar þingsins, en aðrir þekktir sem hafa tilkynnt um komu sína eru ólympíu- og raunveruleikastjarnan Caitlyn Jenner, tónlistarmaðurinn Kid Rock og hljómsveitin Lynyrd Skynyrd.

Meiri athygli vekur hverjir mæta ekki á þingið; hvorki Mitt Romney né John McCain hyggjast mæta né neinn Bush-feðganna þriggja.

Aðra sögu er að segja af demókrötum. Þegar landsþing Demókrataflokksins fer fram í Philadelphia munu stíga á svið Bill og Hillary Clinton, Barack og Michelle Obama og Elizabeth Warren. Bernie Sanders er einnig sagður munu stíga í pontu.

Meðal þotuliðsins sem mun sækja þingið verða Lady Gaga, Snoop Dogg, Fergie, Lenny Kravitz, Idina Menzel og Bryan Cranston.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Washington Post.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert