Francois Hollande, forseti Frakklands, segir að fimmtíu manns, sem slösuðust alvarlega í hryðjuverkaárásinni í Nice í gærkvöldi, séu á milli lífs og dauða.
Staðfest er að í það minnsta 84 manns hafi látið lífið í árásinni.
Hollande segir að fórnarlömbin hafi bæði verið frönsk og af erlendu bergi brotin, raunar frá öllum heimsálfum. Nokkur börn séu á meðal hinna látnu.
Hollande ávarpaði fréttamenn í Nice eftir hádegi í dag.
Hann sagði árásina „fyrirlitlega“. Nice væri ein fallegasta borg í heimi og að árásin hafi átt sér stað þegar fólk var að fagna frelsinu.
Frönsk yfirvöld rannsökuðu nú hvort árásarmaðurinn ætti sér vitorðsmenn sem ógn gæti stafað af.
.@fhollande says "The world's eyes are upon us and the world is expressing its solidarity with us." https://t.co/afmIDj9QAp
— Sky News (@SkyNews) July 15, 2016
Hollande nefndi auk þess að allir Frakkar ættu að standa saman og sýna fjölskyldum fórnarlambanna samúð sína.
Forsetinn hrósaði einnig frönsku öryggissveitunum sem hefði tekist að stöðva för ökumannsins. Lögreglan væri „stolt Frakklands“. Þá þakkaði hann slökkviliðs- og björgunarmönnum fyrir starf sitt á vettvangi í gærkvöldi og nótt, sem og heilbrigðisstarfsfólki í Nice.
Það hefði komið fljótt á vettvang og bjargað fjölmörgum lífum í nótt. Framganga þess hefði verið til algjörrar fyrirmyndar.
Löng orrusta væri framundan. „Allur heimurinn fylgist með okkur og sýnir okkur samstöðu. Heimurinn er að hugsa til okkar.“
Fréttin verður uppfærð