Að breyta farartæki í banvænt vopn er þekkt aðferð. Í gærkvöldi var vörubíl ekið inn í mannfjölda í Nice í Frakklandi og að minnsta kosti áttatíu lágu í valnum. Tugir eru lífshættulega slasaðir á sjúkrahúsi. Ljóst er að um viljaverk var að ræða.
Árásir með bílum eru m.a. vel þekktar í stríði Ísraela og Palestínumanna. Frá því í október á síðasta ári hafa að minnsta kosti 215 Palestínumenn og 34 Ísraelar fallið í átökunum. Í þeim hefur bílum m.a. verið beitt í nokkur skipti.
Yfirvöld á vesturlöndum hafa einnig þurft að fást við sambærileg tilvik á síðustu árum. Tvær slíkar árásir hafa verið gerðar í Bretlandi og ein í Kanada.
Í maí árið 2013 óku tveir öfgafullir íslamistar á breskan hermann, Lee Rigby að nafni. Þeir fóru svo út úr bílnum og reyndu að afhöfða hann. Árásin átti sér stað úti á götu í London um miðjan dag.
Mennirnir voru af nígerískum uppruna og sögðust hafa ráðist á hinn 25 ára gamla hermann til að hefna fyrir múslima sem fallið höfðu fyrir hendi breskra hermanna.
Aðeins átján mánuðum síðar ók maður yfir og drap kanadíska hermanninn Patrice Vincent. Hann særði annan mann í árásinni. Árásarmaðurinn sagðist hafa framið verknaðinn í nafni íslam.
Í júní árið 2007 óku tveir menn brennandi jeppa inn í innritundarsal Glasgow-flugvallar í Skotlandi. Annar þeirra hlaut lífstíðarfangelsi og lýsti dómarinn honum sem trúarofstækismanni.
Í nokkur ár hafa hryðjuverkahópar á borð við Ríki íslams og Al-Qaeda hvatt fylgismenn sína til að framkvæma árásir sem þessar. Það hafa þeir m.a. gert í myndböndum sem þeir hafa birt. Eru fylgismennirnir m.a. hvattir til að nota hvaða vopn sem hendi eru næst.
Í september árið 2014 birti Abu Mohammed al-Adnani, talsmaður Ríkis íslams, hrollvekjandi leiðbeiningar sem ýmsir stuðningsmenn samtakanna hafa síðan framfylgt.
„Ef þú getur ekki sprengt eða skotið úr byssu, komdu þá á einkafundi með heiðnum Frakka eða Bandaríkjamanni og brjóttu höfuðkúpu hans með steini, slátraðu honum með hnífi, keyrðu yfir hann á bílnum þínum, hentu honum fram af bjargi eða sprautaðu í hann eitri,“ sagði al-Adnani í skilaboðum sínum.
Al-Adnani tók fram að það væri engin þörf á að bera slíkar gjörðir undir einn né neinn. Allir guðleysingjar væru réttdræpir. Engu máli skipti hvort fórnarlambið væri hermaður eða óbreyttur borgari. „Þeir eru báðir óvinirnir. Það er leyfilegt að úthella blóði þeirra beggja.“