Myndefni frá hryðjuverkaárásinni í Nice í gærkvöldi er farið að birtast í erlendum fjölmiðlum og á samskiptamiðlum á borð við Youtube og Twitter.
Sky News birti á Facebook-síðu sinni myndskeið af vopnuðum lögreglumönnum í skotbardaga við ökumann vörubílsins á strandgötunni í Nice. Lögreglan skaut manninn til bana, en hann hafði þá myrt að minnsta kosti 84 manns.
Mikið magn vopna og sprengiefna fannst í vörubílnum. Búið er að bera kennsl á manninn, en franskir fjölmiðlar greina frá því að nafn hans sé Mohamed Lahouaiej Bouhlel. Húsleit var gerð á heimili hans í morgun. Samkvæmt heimildum Reuters var hann 31 árs gamall og af frönsku og túnisku bergi brotinn.