Að minnsta kosti áttatíu létust og um eitt hundrað særðust þegar vöruflutningabíl var ekið á mannfjölda í frönsku borginni Nice meðan á hátíðarhöldum vegna þjóðhátíðardags Frakka stóð. Þetta er nýjasta árásin í Frakklandi en stutt er síðan stór hryðjuverkaárás var gerð í París sem Ríki íslams kvaðst hafa staðið á bak við.
Hér að neðan er samantekt á helstu árásum eða tilraunum til árása sem hafa verið gerðar í Frakklandi síðan skotárásin á höfuðstöðvar tímaritsins Charlie Hebdo var gerð í janúar 2015:
Janúar 2015: Tveir menn vopnaðir Kalashnikov-rifflum ruddust inn á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og drápu 12 manns, þar á meðal átta myndasagnahöfunda. Daginn eftir var lögreglukona drepin skammt fyrir utan París þegar byssumaður tók gísla við stórmarkað í eigu gyðinga. Þar voru fjórir drepnir. Charlie Hebdo-árásarmennirnir og gíslatökumaðurinn voru síðar skotnir til bana af lögreglunni. Áður höfðu þeir lýst yfir hollustu sinni við al-Qaeda og Ríki íslams.
Febrúar 2015: Karlmaður réðst með hnífi á þrjá hermenn sem stóðu vörð við miðstöð gyðinga í borginni Nice. Árásarmaðurinn var handtekinn. Hann sagðist hata Frakkland, lögregluna, herinn og gyðinga.
Apríl 2015: Alsírskur námsmaður, Sid Ahmed Ghlam, var handtekinn í París vegna gruns um að hafa myrt konu sem hafði fundist látin í farþegasæti bifreiðar sinnar. Hann var einnig grunaður um að skipuleggja árás á kirkju í úthverfi Parísar. Maðurinn er sagður hafa tengst öfgasamtökum múslima.
Júní 2015: Frakkinn Yassin Salhi drap og afhöfðaði yfirmann sinn, Herve Cornara, og setti höfuðið á girðingu gasverksmiðju með íslamska fána allt í kring. Hann reyndi að sprengja upp verksmiðjuna í Saint-Quentin-Fallavier, suðaustur af Frakklandi, en var síðar handtekinn. Hann framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum í desember.
Júlí 2015: Fjórir menn á aldrinum 16 til 23 ára voru handteknir vegna gruns um að hafa ætlað að ráðast á herstöð þar sem þeir ætluðu að afhöfða hermann. Þeir lýstu yfir hollustu sinni við Ríki íslams.
Ágúst 2015: Bandarískir, breskir og franskir farþegar komu í veg fyrir blóðbað um borð í lest frá Amsterdam til Parísar. Þeir náðu manni sem hóf skothríð á farþega. Hann var vopnaður Kalashnikov-riffli. Hann var þekktur fyrir tengsl sín við öfgasamtök.
Nóvember 2015: Níu menn, sem flestir höfðu barist við hlið liðsmanna Ríkis íslams í Sýrlandi, sprengdu sprengju skammt frá leikvanginum Stade de France og hófu skothríð á fólk sem var að skemmta sér á börum og veitingastöðum í París. Þeir skutu einnig á fólk í tónleikahöllinni Bataclan. Alls létust 130 manns og um 350 manns særðust. Daginn eftir lýsti Ríki íslams ábyrgðinni á hendur sér.
Nóvember 2015: Kennari við skóla gyðinga í borginni Marseille var stunginn af þremur manneskjum sem höfðu uppi and-gyðingleg hróp og sögðust vera fylgjendur Ríkis íslams. Kennarinn særðist á handlegg, fótleggjum og maga.
Janúar 2016: Karl með kjötöxi var skotinn til bana þegar hann reyndi að ráðast til atlögu á lögreglustöð í París. Hann hafði meðferðis táknmynd Ríkis íslams.
Júní 2016: Tveir lögreglumenn, Jean-Baptiste Salvaing og Jessica Schneider, voru myrtir á heimili sínu í Magnanville, vestur af París af árásarmanninum Larossi Abballa. Salvaing var stunginn til bana en Schneider var skorin á háls fyrir framan ungan son þeirra. Abballa var drepinn af sérsveit lögreglunnar. Áður sagðist hann styðja Ríki íslams.
Júlí 2016: Vöruflutningabíll ekur tvo kílómetra í gegnum mannþröng á strandgötu í Nice á þjóðhátíðardegi Frakka. Að minnsta kosti 80 manns létust og enn fleiri særðust. Lögregla skaut ökumanninn til bana. Enginn hefur lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér.