Mohamed Lahouaiej-Bouhlel var smáglæpon sem átti til að leggjast í þunglyndi og beita ofbeldi. Hann reykti, drakk og fór aldrei í mosku að sögn nágranna og ættingja hans.
Vörubílstjórinn frá Túnis, sem á fimmtudaginn ók 19 tonna vörubíl inn í mannfjölda í Nice í Frakklandi og drap 84, þar af 10 börn, hafði aldrei sýnt nein merki um öfgaskoðanir að mati þeirra sem þekktu til.
Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á ódæðinu í dag og sögðu árásarmanninn „hermann“ samtakanna sem hafi brugðist við kallinu um að ráðast á þjóðir sem taka þátt í baráttunni gegn samtökunum í Írak og Sýrlandi.
Hinn 31 árs gamli Lahouaiej-Bouhlel var ekki á lista yfirvalda í Frakklandi yfir mögulega öfgamenn og svo virðist sem hann hafi aðhyllst öfgaskoðanir aðeins nýlega að sögn vina hans og fjölskyldu en innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, greindi frá þessu í dag.
Faðir árásarmannsins ræddi við fjölmiðla fyrir utan heimili sitt í Msaken í Túnis. Sagði hann son sinn hafa verið þunglyndan og aldrei stundað trúarbrögð.
„Á árunum 2002 til 2004 átti hann í vandræðum sem leiddu til þess að hann fékk taugaáfall. Hann varð reiður og öskraði, hann braut allt sem hann sá,“ sagði Mohammed Mondher Lahouaiej-Bouhlel.
„Við erum einnig í áfalli,“ bætti hann við og sagðist ekki hafa séð son sinn síðan hann fluttist til Frakklands. Hann var ekki viss um hvenær það var.
„Hann bað ekki, hann fastaði ekki, hann drakk áfengi,“ sagði faðir árásarmannsins. „Hann meira að segja tók eiturlyf.“
Eftir árásina ræddu nágrannar Lahouaiej-Bouhlel við blaðamann AFP. Sögðust þeir lítið sem ekkert hafa þekkt árásarmanninn.
Sögðu nágrannarnir hann einfara sem talaði sjaldan og svaraði ekki kveðjum þeirra þegar þau mættust. Einn nágranni mannsins sagði hann hafa valdið sér áhyggjum þar sem hann átti það til að gefa dætrum hennar auga.
Þó sagði annar nágranni að hann hefði nýlega rætt við Lahouaiej-Bouhlel á vinalegum nótum eftir að hann sagðist vera að reyna að kaupa sér sígarettur. Að sögn nágrannakonunnar sagðist Lahouaiej-Bouhlel vera bindindismaður og neitaði að fá vín þegar hún bauð honum.
Þrátt fyrir það sást Lahouaiej-Bouhlel oft við drykkju síðustu ár og mætti aldrei í litla mosku skammt frá heimili hans að sögn húsvarðar í blokkinni sem hann bjó í.
Þrátt fyrir að Lahouaiej-Bouhlel væri ekki á lista stjórnvalda yfir mögulega öfgamenn var hann góðkunningi lögreglunnar. Hann var síðast dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í mars eftir að hann framdi líkamsárás í janúar.
Þá eru til gögn um að hann hafi hótað fólki, beitt ofbeldi og stolið á árunum 2010 til 2016.
Fyrrverandi Kona Lahouaiej-Bouhlel var yfirheyrð á föstudaginn en að sögn nágranna eiga þau þrjú börn saman, þar á meðal ungbarn. Þau voru þó skilin þegar árásin var framin.
Einn íbúi íbúðarblokkar sem fjölskyldan bjó í áður en parið hætti saman sagði Lahouaiej-Bouhlel hafa verið ofbeldishneigðan og að hann hafi brugðist illa við óskum konu hans um skilnað fyrir um einu og hálfu ári.
„Konan hans óskaði eftir skilnaði eftir að rifrildi þeirra á milli fór úr böndunum,“ sagði maðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni.
„Hann hafði hægðir út um alla íbúðina, skar upp bangsa dóttur sinnar og skar í dýnu þeirra hjóna. Ég held að hann hafi ekki verið öfgamaður, ég held að hann hafi átt í andlegum veikindum.“