Maðurinn sem drap 84 í Nice í Frakklandi á fimmtudaginn þegar hann ók vörubíl inn í hóp af fólki varð öfgamaður á aðeins nokkrum mánuðum. Þetta segir bróðir hans sem býr í Túnis. Hann segir jafnframt að bróðir hans, Mohamed Lahouaiej-Bouhel, hafi sent fjölskyldu sinni í Túnis jafnvirði 13,6 milljóna íslenskra króna aðeins nokkrum dögum fyrir árásina. Lahouaiej-Bouhel lést í byssubardaga við lögreglu.
Í frétt The Telegraph er vitnað í innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, sem segir að það virðist sem maðurinn hafi farið að aðhyllast öfgaskoðanir mjög hratt. Þá segir nágranni fyrrverandi eiginkonu hans að Lahouaiej-Bouhel hafi byrjað að sækja mosku í borginni í apríl síðastliðnum.
Rannsakendur sem farið hafa í gegnum símagögn Lahouaiej-Bouhel segjast hafa fundið gögn sem sýni að hann hafi verið í sambandi við þekkta íslamska öfgamenn. Er þó settur sá fyrirvari að það gæti verið tilviljun í ljósi þess í hvaða hverfi í borginni hann bjó. „Allir þekkja alla þar,“ hefur The Telegraph eftir heimildarmanni innan leyniþjónustunnar. Lahouaiej-Bouhel virðist hafa þekkt mann að nafni Omar Diaby sem er þekktur öfgamaður, talinn tengjast Al-Nusra samtökunum sem vinna náið með Al-Qaeda.
Ættingjar árásarmannsins hafa haldið því fram að nokkrum dögum fyrir árásina hafi hann sannfært vini sína um að smygla seðlabúntum frá sér til fjölskyldu hans í Túnis. Bróðir hans, Jaber, segist jafnframt ekki hafa séð bróður sinn í mörg ár og að peningarnir hafi komið gríðarlega á óvart.
Fimm hafa verið handteknir, taldir hafa þekkt Lahouaiej-Bouhel. Þeir voru enn í haldi síðdegis í dag, þar á meðal fyrrverandi eiginkona hans sem gaf sig fram við lögreglu sjálf.
Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, sagði í gær að árásarmaðurinn hafi verið hryðjuverkamaður sem „án efa tengdist öfgamönnum á einn eða annan hátt.“
Lahouaiej-Bouhel hafði verið þunglyndur og atvinnulaus í nokkra mánuði. Það vekur upp möguleikann á því að peningarnir sem hann sendi fjölskyldu sinni hafi komið frá hryðjuverkahópi.
Faðir árásarmannsins heldur því þó fram að árásin hafi ekkert tengst trú en að sonur hans hafi átt við andleg veikindi að stríða í meira en tíu ár.
Sagði faðir hans að fjögur ár væru síðan Lahouaiej-Bouhel kom síðast heim. Stundum hringi systir hans eða bróðir í hann en það var aðeins á hátíðisdögum.
„Það sem ég veit er að hann bað aldrei, fór aldrei í mosku, hann tengdist trú ekki neitt. Hann var einn og þunglyndur. Alltaf einn,“ sagði faðir hans.