Mohamed Lahouaiej-Bouhlel skoðaði sig um á göngugötunni í miðborg Nice aðeins tveimur dögum áður en hann ók vörubíl inn í hóp fólks þar og drap 84. Þá hafði hann tekið vörubílinn, sem er 19 tonn, á leigu aðeins nokkrum dögum áður. Heimildarmaður innan rannsóknar málsins greinir frá þessu.
Alls hafa sjö verið handteknir í tengslum við málið en Lahouaiej-Bouhlel var skotinn til bana af lögreglu.
Fólk sem þekkti árásarmanninn hefur lýst honum sem þunglyndum einfara. Sumir hafa sagt hann ekkert trúaðan en aðrir segja að hann hafi aðhyllst öfgaskoðanir, en ekki fyrr en nýlega.
Í Nice eru fjölmargir sem leita enn fregna af ástvinum sínum eftir árásina. 121 liggur enn særður á sjúkrahúsi. „Við höfum ekkert heyrt, hvorki góðar né slæmar fréttir,“ sagði hin litháska Johanna, sem leitar tveggja tvítugra vina sinna.
Að minnsta kosti tíu börn eru meðal hinna látnu ásamt ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Úkraínu, Sviss og Þýskalandi.
Lögregla hefur yfirheyrt hundruð manna sem þekktu árásarmanninn. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni í gær.
Þrjár meiri háttar hryðjuverkaárásir hafa verið gerðar í Frakklandi síðustu átján mánuðina. Frönsk yfirvöld hafa reynt að verjast gagnrýni þess efnis að öryggisráðstafanir í landinu séu gallaðar og borgarar landsins séu ekki verndaðir eins og þeir ættu að vera.
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, hefur nú kallað eftir því að sjálfboðaliðar skrái sig í herinn. „Ég kalla eftir því að allir franskir föðurlandsvinir, sem vilja koma í herinn, geri það,“ sagði Cazeneuve en 12.000 sjálfboðaliðar á aldrinum 17 til 30 ára eru í franska hernum.