Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið 103 hershöfðingja og flotaforingja, eftir að tilraun hersins til að steypa Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta af stóli á föstudag mistókst.
Anadolu-fréttastofan segir að um meiri háttar hreinsanir innan hersins sé að ræða, en frá því á föstudag hafa öryggissveitir lögreglu farið um landið og hneppt fjöldann allan af yfirmönnum í hernum í varðhald.
Verða þeir færðir fyrir dómstóla í dag, þar sem úrskurðað verður hvort þeir skuli sæta gæsluvarðhaldi. Tíu hershöfðingjar hafa þegar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald að sögn Dogan-fréttastofunnar, en þeir sem enn eru í varðhaldi eru sakaðir um að brjóta gegn stjórnarskrá Tyrklands og fyrir tilraun til valdaráns.
Mennirnir eru einnig sakaðir um að tilheyra samtökum klerksins Fethullah Gulen, eins höfuðandstæðings Erdogans, sem dvelur í útlegð í Bandaríkjunum og sem Erdogan sakar um að bera ábyrgð á valdaránstilrauninni. Stjórnvöld hafa kallað samtök Gulens „Fethullahci-hryðjuverkasamtökin“ (FETO), en stuðningsmenn Gulens nefna samtök sín Hizmet og segja þau með öllu vera friðsamleg.
Hátt í 6.000 manns hafa þegar verið tekin höndum eftir valdaránstilraunina á föstudag og hefur Johannes Hahn, sem fer með stækkunarmál Evrópusambandsins, lýst því yfir að hann telji listana yfir þá sem voru handteknir hafa verið tilbúna áður en valdaránstilraunin var gerð.
Erdogan sagði í gær vel koma til greina að taka upp dauðarefsingu á nýjan leik, til þess að bregðast við tilraun uppreisnarmanna innan raða hersins til valdaráns á föstudag.
Hátt í 9.000 opinberum starfsmönnum hefur þá verið sagt upp störfum eftir valdaránstilraunina, að því er Anadolu-fréttastofan hefur eftir tyrkneska innanríkisráðuneytinu, þar af einum fylkisstjóra og 29 bæjarstjórum.