103 hershöfðingjar handteknir eftir valdaránstilraunina

103 hershöfðingjar og flotaforingjar hafa verið hnepptir í varðhald eftir …
103 hershöfðingjar og flotaforingjar hafa verið hnepptir í varðhald eftir valdaránstilraunina.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið 103 hershöfðingja og flotaforingja, eftir að tilraun hersins til að steypa Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta af stóli á föstudag mistókst.  

Anadolu-fréttastofan segir að um meiri háttar hreinsanir innan hersins sé að ræða, en frá því á föstudag hafa öryggissveitir lögreglu farið um landið og hneppt fjöldann allan af yfirmönnum í hernum í varðhald.

Verða þeir færðir fyrir dómstóla í dag, þar sem úrskurðað verður hvort þeir skuli sæta gæsluvarðhaldi. Tíu hershöfðingjar hafa þegar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald að sögn Dogan-fréttastofunnar, en þeir sem enn eru í varðhaldi eru sakaðir um að brjóta gegn stjórnarskrá Tyrklands og fyrir tilraun til valdaráns.

Mennirnir eru einnig sakaðir um að tilheyra samtökum klerksins Fethullah Gulen, eins höfuðandstæðings Erdogans, sem dvelur í útlegð í Bandaríkjunum og sem Erdogan sakar um að bera ábyrgð á valdaránstilrauninni. Stjórnvöld hafa kallað samtök Gulens „Fethullahci-hryðjuverkasamtökin“ (FETO), en stuðningsmenn Gulens nefna samtök sín Hizmet og segja þau með öllu vera friðsamleg.

Hátt í 6.000 manns hafa þegar verið tekin höndum eftir valdaránstilraunina á föstudag og hefur Johann­es Hahn, sem fer með stækk­un­ar­mál Evr­ópu­sam­bands­ins, lýst því yfir að hann telji list­ana yfir þá sem voru hand­tekn­ir hafa verið til­búna áður en vald­aránstilraun­in var gerð.

Er­dog­an sagði í gær vel koma til greina að taka upp dauðarefs­ingu á nýj­an leik, til þess að bregðast við til­raun upp­reisn­ar­manna inn­an raða hers­ins til vald­aráns á föstu­dag.

Hátt í 9.000 opinberum starfsmönnum hefur þá verið sagt upp störfum eftir valdaránstilraunina, að því er Anadolu-fréttastofan hefur eftir tyrkneska innanríkisráðuneytinu, þar af einum fylkisstjóra og 29 bæjarstjórum. 

Myndir á borð við þessa hafa birst á samfélagsmiðlum um …
Myndir á borð við þessa hafa birst á samfélagsmiðlum um helgina, en þær sýna hvar tyrknesk yfirvöld hafa stillt föngum upp í stórum hópum, berum að ofan, í skemmum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert