Tyrkneski ríkisfjölmiðillinn Anadolu hefur greint frá því að fyrrverandi hershöfðingi í tyrkneska flughernum hafi játað að hafa skipulagt valdaránstilraunina í landinu, sem gerð var fyrir helgi. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu.
Játning hershöfðingjans, Akin Ozturk, á að hafa komið fram við yfirheyrslu, en hann er einn 70 háttsettra manna innan tyrkneska hersins sem eru í haldi vegna málsins. Hafði hann áður neitað allri sök og sagðist þá hafa tekið þátt í að koma í veg fyrir valdaránið.
Að auki þeirra 70 hershöfðingja og aðmírála sem eru í haldi tyrkneskra yfirvalda, hefur meira en 8.000 lögreglumönnum verið vikið frá störfum og verið gert að afhenda vopn sín, en þeir eru grunaðir um að hafa tekið þátt í tilrauninni.