Var valdaránstilraunin sett á svið?

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Prédikarinn Fethullah Gulen, einn helsti andstæðingur Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta, heldur því fram að Erdogan sjálfur hafi staðið að baki valdaránstilrauninni á föstudagskvöld. Markmið Erdogans hafi verið að styrkja valdastöðu sína í Tyrklandi enn frekar.

Margir hafa tekið undir þetta, svo sem tyrkneskir stjórnarandstæðingar og fylgismenn Gulens sem og hinir ýmsu samsæriskenningasmiðir á samfélagsmiðlum. Sjálfur kallaði Erdogan tilraunina „gjöf frá guði“.

Að minnsta kosti 290 manns létust og 1.400 særðust í átökum aðfaranætur laugardagsins þegar hluti tyrkneska hersins reyndi að ræna völdum í landinu. Flestir þeirra sem tóku þátt í tilrauninni eru sagðir koma úr röðum herlögreglunnar, flughersins og landhers.

Fjölmargir, sér í lagi notendur samfélagsmiðla á borð við Twitter, hafa borið valdaránstilraunina saman við brunann í Reichstag, þinghúsi Þýskalands, í Berlín í febrúar árið 1933. Marinus van der Lubbe, ungur hollenskur kommúnisti, var fundinn sekur um ódæðið og var hann tekinn af lífi í kjölfarið. Sú hugmynd hefur þvert á móti verið viðruð margsinnis að nasistar hafi sjálfir kveikt í þinghúsinu. Hitler hafi síðan notað brunann sem afsökun til þess að styrkja stöðu sína, taka völdin í Weimar-lýðveldinu og handtaka andstæðinga sína.

Stuðningsmenn Erdogans söfnuðust saman á götum Ankara, höfuðborgar Tyrklands.
Stuðningsmenn Erdogans söfnuðust saman á götum Ankara, höfuðborgar Tyrklands. AFP

„Gjöf frá guði“

Erdogan sagði stuðningsmönnum sínum á flugvellinum í Istanbúl að hreyfingin í kringum prédikarann Fethullah Gulen, sem hann kallaði „vopnuð hryðjuverkasamtök“, bæri ábyrgð á valdaránstilrauninni.

Haft var eftir honum að tilraunin hafi verið „gjöf frá Guði“ og að hún myndi hjálpa honum við að „hreinsa“ friðarspilla úr röðum hersins. Uppreisnarmennirnir myndu þurfa að greiða dýru verði fyrir svik sín við föðurlandið.

Þessi ummæli vöktu óhug margra sem óttast að Erdogan, sem hefur margoft verið sakaður um að ofsækja andstæðinga sína, muni nota valdaránið sem afsökun til þess að ráðast af enn meiri hörku gegn þeim.

Strax á laugardag bárust fregnir um að öryggissveitir hans hefðu þegar handtekið yfir sex þúsund manns. Um er að ræða yfirmann tyrkneska flughersins, hershöfðingja, óbreytta hermenn og saksóknara, auk þess sem 2.475 dómurum var jafnframt vikið frá um helgina.

AFP

Grimmilegri harðstjórn

Nokkrir stjórnmálaskýrendur eru þegar farnir að velta því fyrir sér hvort tilraunin hafi verið sett á svið til þess að gefa Erdogan tækifæri til þess að hreinsa til í hernum og styrkja valdastöðu sína í Tyrklandi.

Ryan Heath, sem skrifar um málefni Evrópusambandsins fyrir vefritið Politico, deildi á Twitter-síðu sinni ummælum tyrknesks heimildarmanns síns um að atburðir föstudagskvöldsins hafi verið settir á svið.

„Við munum líklegast horfa fram á snemmbúnar kosningar þar sem Erdogan mun reyna að tryggja sér lygilegan meirihluta atkvæða,“ sagði heimildarmaðurinn. Stjórnarhættir hans ættu eftir að verða gerræðislegri og harðstjórnin enn fremur grimmilegri.

Nokkrir Twitter-notendur hafa gagnrýnt Erdogan undir myllumerkinu #TheatreNotCoup, en einn þeirra skrifaði: „Tvö orð: Reichstag-bruninn. Árið var 1933 og þið vitið hvað gerðist næst.“

Annar hafði eftir vini sínum í Istanbúl að tilraunin hefði líklegast verið raunveruleg. Tyrknesk stjórnvöld hefðu á hinn bóginn leyft henni að lifa aðeins, í stað þess að bæla hana strax niður, vitandi vits að hún væri skipulagslaus, viðvaningsleg og veik.

„Það þýðir að í kjölfarið munum við horfa fram á raunverulegt valdarán af hálfu Erdogans sjálfs og síðustu leifar lýðræðisins verða að engu.“

Eins og áður kom fram sagðist Erdogan vera þess fullviss að Gulen og fylgismenn hans hefðu staðið að baki valdaránstilrauninni. Gulen hefur þvert á móti vísað því á bug og fordæmt tilraunina. Heldur hann því sjálfur fram að Erdogan hafi sett tilraunina á svið til þess að tryggja sig enn frekar í sessi.

Erdogan hefur margsinnis áður sakað hreyfingu Gulens um samsæri gegn sér og tyrkneskum stjórnvöldum, en sjálfur hefur Gulen verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum undanfarin ár.

Erdogan og Gulen voru eitt sinn bandamenn en eru í …
Erdogan og Gulen voru eitt sinn bandamenn en eru í dag erkióvinir. AFP

Ráðgáta af hverju forsetavélin var ekki skotin niður

Fréttaveitan Reuters greindi frá því í gær að tvær F-16-orrustuþotur, sem uppreisnarmenn innan hersins stýrðu, hefðu mætt forsetavél Erdogans á leið frá Marmaris til Ataturk-flugvallarins í Istanbúl aðfaranótt laugardagsins. Þetta gerðist aðeins fáeinum klukkustundum eftir að hluti hersins snerist gegn forsetanum.

„Að minnsta kosti tvær F-16-þotur herjuðu á vél Erdogans þegar hún var í lofti á leið til Istanbúl,“ sagði fyrrverandi hershöfðingi tyrkneska hersins í samtali við Reuters. Það væri honum hulin ráðgáta af hverju vél Erdogans hefði ekki verið skotin niður.

Tyrkneskur embættismaður staðfesti að tvær orrustuþotur undir stjórn uppreisnarmann, hefðu truflað vél Erdogans. Vélinni hefði samt sem áður verið lent heilu og höldnu á Ataturk-flugvellinum. Annar embættismaður sagði að forsetavélin hefði lent í „vandræðum í loftinu“ en útskýrði málið ekki frekar.

Þrengt mjög að tjáningarfrelsi

Tyrklandsforseti hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir að þrengja mjög að tjáningarfrelsi í landinu. Hann hefur látið loka dagblöðum stjórnarandstöðunnar og handtekið 1.845 blaðamenn, rithöfunda og aðra gagnrýnendur sína frá árinu 2014. Eiga þeir yfir höfði sér ákæru fyrir móðgandi ummæli um forsetann. Nokkurra ára fangelsisrefsing getur legið við slíku broti.

Auk þess hefur hann reynt að loka fyrir samfélagsmiðla eins og Twitter og kæfa umræðu þar. Það þótti því skjóta skökku við þegar hann notaði einmitt slíka miðla á föstudagskvöldið til þess að hvetja tyrkneskan almenning til þess að fjölmenna út á götur og mótmæla valdaráninu.

Frétt The Independent

Frétt The Guardian

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert