Tyrknesku þjóðarinnar að krefjast dauðarefsingar

Stuðningsmenn Erdogan brenna líkneski í mynd klerksins Fethullah Gulen, eins …
Stuðningsmenn Erdogan brenna líkneski í mynd klerksins Fethullah Gulen, eins helsta andstæðings forsetans, á stuðningsfundi í Istanbúl í gær. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segist tilbúinn að taka upp dauðarefsingu að nýju „ef almenningur krefst þess“. Orðin lét Erdogan falla við stuðningsmenn sem safnast höfðu saman fyrir utan heimili hans og kölluðu eftir dauðarefsingunni. Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, hefur á sama tíma hvatt til þess að menn láti ekki stjórnast af hefndarhug heldur fylgi lögum.

Miklar hreins­an­ir hafa verið gerðar á stjórn­kerfi Tyrk­lands í kjöl­far mis­heppnaðrar valdaránstilraun­ar­ á föstudag og hefur Erdogan nefnt oftar en einu sinni að til greina komi að taka dauðarefsingu upp að nýju. Örygg­is­sveit­ir Er­dog­ans hafa þegar hand­tekið um sex þúsund manns, þar á meðal her­menn, dóm­ara og sak­sókn­ara, og þá hef­ur um átta þúsund lög­reglu­mönn­um verið vikið úr starfi.

Erdogan sagði við fólkið sem safnast hafði saman fyrir framan heimili hans nú í morgun að Tyrkland væri lýðræðisríki þar sem farið væri að lögum.

Hann væri hins vegar reiðubúinn að taka upp dauðarefsinguna að nýju ef tyrkneska þjóðin krefðist þess og þingið samþykkti löggjöfina. „Það er ekki hægt að horfa framhjá vilja fólksins,“ sagði Erdogan.

„Er ekki dauðarefsingin notuð í Bandaríkjunum? Rússlandi? Kína? Í löndum víða um heim? Það er bara í löndum Evrópusambandsins sem er engin dauðarefsing.“

„Hefndarhugur ekki leyfilegur“

Binali Yildrim, forsætisráðherra Tyrklands, hvatti hins vegar til þess að menn létu af hefndarhug eftir fund hans með Kemal Kilicdaroglu, leiðtoga stjórnarandstöðuflokksins CHP.

„Hefndarhugur er ekki leyfilegur. Það er ekki ásættanlegt í ríki sem stjórnað er af lögum,“ sagði Yildrim og vísaði þar til mynda sem birst hafa og sýna stuðningsmenn stjórnarinnar ráðast á einstaklinga sem grunaðir eru um aðild að valdaránstilrauninni.

Þeim sem brotið hefðu lög yrði refsað. „Í dag þurfum við á samstöðu að halda,“ sagði Yildrim.

Tyrkir lögðu dauðarefsinguna af árið 2004, sem hluta af aðildarumsókn landsins í ESB, og hafa leiðtogar Evrópusambandsins varað Tyrki við því að verði dauðarefsing tekin upp í landinu að nýju fái Tyrkland ekki aðild að ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert