Trump frambjóðandi repúblikana

Repúblikanaflokkurinn hefur valið Donald Trump sem frambjóðanda sinn í forsetakosningunum vestanhafs sem fram fara í nóvember.

Næsta víst var að Trump yrði fyrir valinu og því aðeins um formsatriði að ræða. Tryggði hann sér þá 1.237 kjörmenn sem til þurfti í kosningu á landsþingi flokksins sem stendur nú yfir.

Það var heimaríki Trumps, New York, sem tryggði honum útnefninguna, en eftir að atkvæði þaðan voru tilkynnt hafði Trump hlotið 1.267 kjörmenn, sem er meira en nóg. Það var sonur Trumps og alnafni sem tilkynnti kjörmannafjölda heimaríkis þeirra feðga.

„Það er heiður að tryggja Donald Trump kjörmannafjöldann með 89 kjörmönnum,“ sagði Trump yngri þegar hann las upp niðurstöðurnar, með þremur systkinum sínum; Ivönku, Eric og Tiffany. „Til hamingju pabbi, við elskum þig.“

Eftir að tölurnar voru lesnar fór lagið New York, New York, í flutningi Franks Sinatra í gang í Quicken Loans-höllinni í Cleveland í Bandaríkjunum, þar sem landsfundurinn fer fram.

Á twitterreikningi sínum segir Trump það mikinn heiður að vera útnefndur frambjóðandi repúblikana. Hann muni leggja hart að sér og ekki bregðast þeim.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert