Rannsakendur hollenska fyrirtækisins sem leiðir neðansjávarleitina að MH370 farþegavél Malaysia Airlines sem hvarf fyrir tveimur árum yfir Indlandshafi telja nú að verið sé að leita á röngum stað. Flugvélin kunni að hafa svifið niður, í stað þess að steypast beint í sjóinn.
Farþegavél Malaysia Airlines hvarf í mars 2014 með 239 farþega og flugáhöfn innanborðs, en vélin var á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Sl. tvö ár hefur hópur rannsakenda undir stjórn verkfræðihópsins Fugro fínkembt svæði á stærð við Grikkland í leit að flugvélinni.
Ekkert hefur enn fundist af vélinni og núverandi áætlanir gera ráð fyrir að leit verði hætt eftir þrjá mánuði. Vera kann þó að leit verði hætt enn fyrr því stjórnvöld í Malasíu, Kína og Ástralíu, sem kosta leitina að stærstum hlut, hafa boðað til fundar á morgun.
„Ef hún er ekki þarna, þá er hún einhvers staðar annars staðar,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Paul Kennedy, verkefnisstjóra Fugro.
Þó að Kennedy útiloki ekki að vélin sé á svæðinu þar sem nú er leitað, en finnist ekki þar vegna einhverra óvenjulegra aðstæðna, þá telur hann og teymi hans mun líklegra að vélin hafi svifið niður og endanlegur lendingarstaður hennar sé því utan núverandi leitarsvæðis.
„Ef flugmenn voru við stjórn þá hefði hún geta svifið langa leið,“ sagði Kennedy. „Það væri hægt að láta vélina svífa út fyrir leitarsvæði okkar og ég tel rökrétt að telja að þetta kunni að hafa gerst.“
Efasemdir um að leitað sé á réttum stað eru taldar geta kallað á kröfur um að leitargögn og aðrar upplýsingar verði gerð opinber þannig að fræðimenn og aðrir geti leitað svara við því hvað hafi orðið af vélinni.
Hugmynd Fugro nýtur ekki stuðnings annarra sem að rannsókninni koma, m.a. Boing-flugvélaframleiðandans, bresku flugslysastofnunarinnar eða gervihnattafyrirtækisins Inmarsat PLC.
Talið er að fundurinn á morgun verði notaður til að ákveða hvort leit að vélinni skuli haldið áfram, en kostnaður við hana er nú þegar orðinn 137 milljónir dollara og er hún þar með orðin dýrasta leit í allri flugsögunni.