Vill gjörbreyta utanríkisstefnunni

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, segir að ef hann verði kjörinn forseti Bandaríkjanna sé ekki víst að Bandaríkin muni skuldbinda sig til að verja önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

Samkvæmt stofnsáttmála bandalagsins jafngildir árás á eitt NATO-ríki árás á öll hin.

Í samtali við New York Times segir Trump hins vegar að Bandaríkin myndu aðeins koma þeim ríkjum sem hefðu „staðið við skuldbindingar sínar gagnvart okkur“ til hjálpar.

Trump mun flytja ræðu á landsþingi Repúblikanaflokksins í Cleveland í kvöld.

Í frétt New York Times kemur fram að Trump muni meðal annars fjalla um utanríkisstefnu sína og áform sín, verði hann kjörinn forseti, um að draga úr útgjöldum og þátttöku bandarískra stjórnvalda á erlendri grundu.

Spurður um ógnanir Rússa gagnvart Eystrasaltsríkjunum sagðist Trump fyrst myndu kanna hvort ríkin hefðu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Bandaríkjunum. Ef svo væri kæmi hann þeim til hjálpar.

Auk þess sagðist hann ekki myndu þrýsta á bandamenn Bandaríkjanna um að hætta að ofsækja pólitíska andstæðinga eða brjóta mannréttindi. Sagði hann að Bandaríkin þyrftu fyrst að leysa eigin vandamál áður en þau læsu yfir hausamótunum á öðrum ríkjum.

„Sjáðu hvað er að gerast í landinu okkar. Hvernig eigum við að lesa yfir öðrum ríkjum á meðan fólk er að skjóta lögreglumenn með köldu blóði?“ sagði Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert