Réðst að fólki með sveðju

Árásarmaðurinn liggur í götunni og lögreglan stumrar yfir honum.
Árásarmaðurinn liggur í götunni og lögreglan stumrar yfir honum. Skjáskot/ twitter.com/KolHaolam

Kona er látin og tveir eru særðir eftir sveðjuárás í nágrenni Stuttgart í Þýskalandi.

Independent segir lögreglu hafa handtekið mann vegna árásarinnar sem átti sér stað í bænum Reutlingen í suðvesturhluta landsins. Independent vitnar í götublaðið Bild sem segir manninn hafa ráðist til atlögu með sveðju fyrir utan kebab-veitingastað og að fjöldi vitna hafi flúið í ofboði.

„Árásarmaðurinn var gjörsamlega galinn. Hann hljóp með sveðjuna aftan við lögreglubíl í eftirlitsferð,“ sagði vitni við blaðið.

Vitnið sagði að ökumaður á BMW-bifreið hefði keyrt manninn niður og að eftir á hefði hann „legið flatur á jörðinni og ekki hreyft sig“.

Samkvæmt Independent hefur lögreglan staðfest að árásarmaðurinn sé sýrlenskur flóttamaður en nafn hans hefur ekki verið gefið upp. Hvatinn að baki árásinni sé óljós.

Óstaðfestar fregnir herma að fórnarlambið sem lést hafi verið starfsmaður kebab-staðarins. Spiegel segir manninn og fórnarlambið hafa rifist. Maðurinn sé 21 árs og lögregla hafi þekkt til hans fyrir.  

Tvær aðrar árásir hafa átt sér stað í Þýskalandi á síðastliðinni viku. 18 ára piltur gekk berserksgang með skammbyssu á föstudagskvöld í verslunarmiðstöð í München og myrti níu manns og á mánudagskvöldið særði 17 ára afganskur hælisleitandi fimm lestarfarþega með exi. Báðir árásarmennirnir eru látnir, sá fyrri svipti sig lífi en sá síðari var skotinn til bana á flótta undan lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert