Tyrkir ekki í stöðu til þess að ganga í ESB

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir Tyrki ekki vera í stöðu til þess að ganga í sambandið á næstunni. Allar aðildarviðræður þeirra við sambandið verði jafnframt settar á ís ef tyrknesk stjórnvöld ákveða að taka aftur upp dauðarefsingu.

Tyrknesk stjórnvöld hafa handtekið eða rekið úr starfi yfir sextíu þúsund opinbera starfsmenn, svo sem hermenn, lögreglumenn, kennara og ráðuneytisstarfsmenn, eftir að valdaránstilraunin í landinu var brotin á bak aftur í síðustu viku.

„Ég tel að Tyrkland, eins og sakir standa, sé ekki í stöðu til þess að verða aðildarríki í bráð og ekki einu sinni til lengri tíma litið,“ sagði Juncker í samtali við franska sjónvarpsstöð í morgun.

Hann bætti því við að ríki sem heimiluðu dauðarefsingar í lögum ættu ekki heima innan Evrópusambandsins.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sagt að til greina komi að taka aftur upp dauðarefsingu í landinu. Krafa almennings sé sú að taka eigi þá sem skipulögðu valdaránstilraunina af lífi. 

Dauðarefsing var afnumin úr tyrkneskum lögum árið 2004, en henni hafði þá ekki verið beitt í áratugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert