„Þú ert ekki heiðarlegur“

Mennirnir reyndu að selja uppboðshúsinu Christies falsaða styttu gegn betri …
Mennirnir reyndu að selja uppboðshúsinu Christies falsaða styttu gegn betri vitund. AFP

„Þú ert ekki heiðarlegur,“ sagði einn hinna ákærðu í Bruun Rasmussen-málinu í Danmörku við fulltrúa ákæruvaldsins eftir að sýknudómur féll yfir hinum ákærðu þremenningum.

Þeim hafði verið gefið að sök að hafa reynt að selja falsaða eftirlíkingu af styttunni Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin.

Sjá frétt mbl.is: Reyndu að selja falskan „Hugsuð“

Samkvæmt ákæruvaldinu reyndu mennirnir þrír að selja styttuna til uppboðshússins Christie's í Lundúnum árið 2013 fyrir 4-6 milljónir danskra króna. Það reyndu þeir þrátt fyrir að þeir vissu að um falsaða eftirlíkingu var að ræða. 

Ákæruvaldið krafðist þriggja ára fangelsisrefsingar yfir mönnunum. Þeir neituðu sök og voru sýknaðir í bæjardómi Kaupmannahafnar í byrjun júlí.

Ítarlega var fjallað um málið á mbl.is í júní. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki verið ólöglegt að upplýsa Christie's ekki um það að mat hefði farið fram á styttunni sem sýndi að sennilega væri um falsaða eftirlíkingu að ræða. Þá hafði það einnig áhrif á málið að kaupandinn, Christie's, væri uppboðshús með yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum. Hefðu þeir reynt að selja einstaklingi með takmarkaða listþekkingu hofði málið sennilega öðruvísi við. 

Dómnum hefur verið áfrýjað

Per Justesen, fulltrúi ákæruvaldsins, hafði einmitt orð á þessu við fjölmiðla eftir dómsuppsögnina. „Þetta þýðir að ef þeir hefðu reynt að selja einstaklingi styttuna með þessum hætti, þá væri um glæp að ræða,“ sagði Justesen í samtali við Politiken.

Þá var einnig deilt um það í málinu hvort þremenningarnir hefðu í raun haft í hyggju að selja Christie's styttuna. Þeir héldu því fram að þeir hefðu aðeins viljað fá mat Christie's á því hvort styttan væri fölsuð eða ekta. Ákæruvaldið taldi hafið yfir allan vafa að þeir hefðu reynt að selja styttuna. Var helst deilt um enska hugtakið „consign“ sem kom fyrir í tölvupósti. Þrír túlkar voru fengnir til þess að leggja mat á hugtakið og töldu þeir allir að orðið þýddi „að selja“. Verjendur mannanna töldu hins vegar að orðalagið ætti að túlka sem „að skila inn“.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hafið yfir allan vafa að með hugtakinu „to consign“ hafi skýlaust verið átt við sölu.

Ákæruvaldið hefur nú ákveðið að áfrýja dómi bæjardómsins til landsréttarins. „Við erum ekki sammála sönnunarmatinu í dómi bæjardómsins og teljum líkur á annarri niðurstöðu í landsréttinum,“ segir fulltrúi ákæruvaldsins í samtali við Politiken.

Sjá frétt Politiken.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert